Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun verða veittar heimildir í lögum um tekjustofna sveitarfélaga til að leggja árlega til hliðar fjármuni til að mæta kostnaði vegna nýrra reglna um fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga. Þannig muni sjóðurinn styðja við sameiningar sveitarfélaga, verði þingsályktunartillaga Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, samþykkt.
Þingsályktunartillagan er stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að stuðningur við sameiningu sveitarfélaga verði stóraukinn.
Þá stendur til að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega sjálfbærni þeirra. Til að mynda yrði gistináttagjald fært til sveitarfélaganna, verði þingsályktunartillagan samþykkt.
Meðal tillagnanna er að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði endurskoðaður í heild fyrir almennar sveitarstjórnarkosningar 2022 og breytingar innleiddar í áföngum á því kjörtímabili. Markmiðið endurskoðunar yrði að auka jöfnuð sem styður við langtímastefnumótun, meðal annars á sviði opinberra fjármála.
Aðstoð í allt að fimm ár
„Stuðningurinn getur verið í ýmsu formi, svo sem þátttöku í kostnaði við undirbúning og framkvæmd sameiningar, framlögum til að mæta tekjutapi vegna lækkunar á jöfnunarframlögum og með framlögum til að stuðla að endurskipulagningu þjónustu og stjórnsýslu í kjölfar sameiningar, þ.m.t. framlögum fyrir allt að 50% stofnkostnaðar grunnskólamannvirkja og leikskóla,“ segir í þingsályktunartillögunni.
Aðstoðina má veita í allt að fimm ár frá og með sameiningarári, á grundvelli reglna sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 98. gr. sveitarstjórnarlaga, að því er segir í tillögunni.
Sjóðurinn fái heimild frá árinu 2020
„Allt að 15 milljarðar gætu farið í þennan stuðning á tímabilinu, þ.e. fram til ársins 2026 er 1.000 íbúamarkið tekur gildi og í allt að sjö ár eftir það, sem væri endanlegur útgreiðslutími. Nefndin leggur til að sjóðurinn fái heimild strax á árinu 2020 til að hefja söfnun í sjóð sem mætir þessum kostnaði, auk þess sem reglur um framkvæmd stuðnings yrðu endurskoðaðar í heild sinni,“ segir í þingsályktunartillögunni.
Í ályktuninni segir að tekjustofnar sveitarfélaga skiptist í stórum dráttum útsvar, fasteignaskatt og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en auk þess innheimta sveitarfélögin ýmsar þjónustutekjur og tekjur af eigin stofnunum og fyrirtækjum, það er af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum og hitaveitum.