Arion banki hagnaðist um 2,1 milljarð króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2019. Það er umtalsvert minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann var 3,1 milljarður króna. Á fyrstu sex mánuðum ársins nemur hagnaður bankans alls 3,1 milljarði króna en var fimm milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri Arion banka sem birt var í dag.
Arðsemi eigin fjár Arion banka var áfram að vera slök á ársfjórðungnum, eða 4,3 prósent. Hún var 5,9 prósent á sama tímabili í fyrra en einungis 2,1 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019. Helsta ástæðan fyrir slakri arðsemi er Valitor, dótturfélag bankans sem er til sölu, en arðsemi eigin frá væri 6,6 prósent ef Valitor er undanskilið.
Eigið fé bankans var 195 milljarðar króna og eignir þess 1.233 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins. Eiginfjárhlutfallið var því 22,8 prósent í lok júní.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að afkoman á ársfjórðungnum hafi ekki verið nógu góð. „Það er engu að síður jákvætt að grunnstarfsemi bankans þróast í rétta átt og hreinar vaxtatekjur halda áfram að vaxa, hvort sem við miðum við fyrsta ársfjórðung þessa árs eða annan ársfjórðung síðasta árs. Gæði lánabókar bankans eru áfram góð en nokkuð hefur hægt á í efnahagslífi landsins og má sjá þess annars vegar merki í samdrætti lánabókar og hins vegar í niðurfærslum lána. Samsetning lánabókarinnar er jafnframt að breytast sem endurspeglar áherslu bankans á arðsemi umfram vöxt. Þóknanatekjur eru áfram stöðugar og afkoma af tryggingastarfsemi Varðar, dótturfélags bankans, var góð á tímabilinu. Kostnaður í starfsemi bankans er að þróast með réttum hætti en eitt af verkefnum okkar á næstunni verður að gera enn betur í þeim efnum.“
Hann segir að fyrir liggi að hefja vinnu við að móta áherslur í stefnu og starfsemi bankans til næstu ára svo bankinn sé sem best í stakk búinn til að mæta þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað á fjármálaþjónustu. „Við munum horfa til ýmissa þátta í starfsemi bankans, t.a.m. eiginfjárskipan, gæða lánasafns og aukinnar áhættudreifingar sem og skilvirkni í starfseminni, ekki síst í tengslum við aukið vægi stafrænna lausna. Markmiðið er að styrkja stöðu bankans enn frekar, auka arðsemi og tryggja að bankinn verði áfram í fararbroddi þegar kemur að nútímalegri fjármálaþjónustu.“