Hlutfall fyrstu kaupenda af heildarfjölda íbúðakaupenda var 27,7 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins. Það hefur aldrei verið hærra frá því að byrjað var að mæla hlutfall þeirra. Til samanburðar var hlutfall fyrstu íbúðarkaupenda á sama ársfjórðungi árið 2009 alls 7,9 prósent af öllum kaupum. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var í morgun.
Þar segir að þetta bendi til þess að nú sé auðveldara en áður að safna fyrir íbúð og að athygli veki að mikil hækkun á fasteignaverði síðastliðinn áratug, þar sem það hefur rúmlega tvöfaldast í krónum talið, hafi ekki haft áhrif á hlutfall fyrstu kaupenda á markaðinum.
Á Vestfjörðum fjölgaði kaupsamningum um 30 prósent og um átta prósent í Reykjanesbæ. Í öðrum landshlutum mældist fækkun.
Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu var 160 dagar á fyrri hluta ársins 2019, sem er jafn langur tími og á sama tímabili í fyrra.
Dregið hefur úr 12 mánaða hækkunum ásetts verðs íbúðarhúsnæðis á landinu öllu, en það hefur hækkað meira utan höfuðborgarsvæðisins en innan þess.