Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, leggur til í nýrri þingsályktunartillögu að gerðardómi eða nefnd að norrænni fyrirmynd verið komið á sem muni taka fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og ekki séu falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar. Þingsályktunartillagan er tillaga um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023.
Eitt af verkefnismarkmiðum þingsályktunartillögunnar um samskipti ríkis og sveitarfélaga er að „gæta að og virða sjálfstjórn sveitarfélaga og rétt þeirra til að ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, svo sem verkefnum og fjárhag.“ Þá verði unnið að því að greina kosti þess að koma á fót gerðardómi að norrænni fyrirmynd.
Ábyrgð verkefnisins væri í höndum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Samstarfsaðilar væru þó öll ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga. Verkefnið verður unnið á árunum 2020 til 2022 verði þingsályktunartillagan samþykkt.
Í þingsályktunartillögunni er einnig vísað til Evrópusáttmálans um sjálfstjórn sveitarfélaga sem tók gildi hérlendis árið 1991. Í úttekt Evrópuráðsins hafi komið fram áhugaverðar ábendingar, til að mynda ábendingu um hvort veita skuli sveitarfélögum sérstaka lagaheimild til að skjóta til dómstóla ákvörðunum ríkisvaldsins sem þau telja fela í sér brot á sjálfsstjórnarrétti þeirra samkvæmt Evrópusáttmálanum.