Hutfall íbúða í langtímaleigu á landsvísu hefur lækkað um nær þriðjung frá árinu 2015. Lækkunin er mest á Suðurnesjum þar sem hlutfallið fór úr 18 prósentum árið 2015 niður í 11 prósent á sama tímabili. Jafnframt er óhagstæðast að leigja á Vestfjörðum, Austurlandi og á Norðurlandi vestra, að því er kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Leigumarkaðurinn utan Reykjavíkur er virkastur á Suðurnesjum þar sem hlutfall leiguíbúða af íbúum er 11 prósent, hæst allra landshluta. Það er afar hátt hlutfall sé það borið saman við Suðurland, Austurland, Norðurland Vestra og Vestfirði þar sem einungis 3 til 5 prósent allra íbúða eru á langtímaleigu.
Af þeim 11.000 langtímaleiguíbúðum eru 7 þúsund þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Norðurlandi Eystra eru 6 til 8 prósent allra íbúða í leigu.
Auglýsing
Hlutfall íbúða í leigu lækkað mest á Suðurnesjum
Mikil breyting hefur átt sér stað á leigumarkaðnum á síðustu fjórum árum, en hlutfall íbúða í langtímaleigu á landsvísu hefur lækkað um nær þriðjung frá árinu 2015, úr 10,6 prósentum niður í 7,5 prósent. Fjöldi leiguíbúða hefur jafnframt minnkað úr rúmum 14 þúsundum í 11 þúsund frá árinu 2015.
Lækkunin er mest á Suðurnesjum þar sem hlutfallið fór úr 18 prósentum árið 2015 niður í 11 prósent á sama tímabili. Leiguíbúðum hefur einnig fækkað hlutfallslega á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi Eystra, Vesturlandi og Suðurlandi, en litla breytingu er að sjá á Austurlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi Vestra. Hlutfallslega hefur lækkunin verið hröðust í Reykjavík og Hafnarfirði, en lítil breyting er á leiguíbúðum í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.
Íbúðaverð hefur hækkað töluvert umfram leiguverð á síðustu fjórum árum, að því er kemur fram í mánaðarskýrslunni. Þróunin gefur til kynna að eftirspurn eftir langtímaleigu hafi minnkað þar sem aðrir valkostir á húsnæðismarkaðnum hafi þótt fýsilegri.
Þá eru ástæður þess taldar vera aðgerðir hins opinbera til stuðnings íbúðarkaupa og stóraukning ferðamanna sem hafi leitt til þess að leigusalar settu íbúðir sínar frekar á skammtímaleigu heldur en langtímaleigu.
Leiguverð hækkar hraðar en íbúðaverð
Á síðustu mánuðum hefur leiguverð hefur hækkað hraðar en íbúðaverð. Hlutfall verðs gegn leigu hefur hækkað á undanförnum sjö árum, þannig að hagkvæmara hefur orðið að leigja en áður. Enn fremur er hlutfalslega hagkvæmara að leigja á höfuðborgarsvæðinu heldur en utan þess.
Mikill munur er þó á milli landshluta og er óhagstæðast að leigja á Vestfjörðum, Austurlandi og á Norðurlandi vestra. Hlutfallið hefur þó ækkað hratt á Suðurnesjum, Vesturlandi, Suðurlandi og á Norðurlandi eystra og er nú svipað og á höfuðborgarsvæðinu.
Í skýrslunni segir að eftir því sem fleiri íbúðir séu nýttar í langtímaleigu aukist gjarnan samkeppni milli leigusala sem þrýsti leiguverði niður og auki hagkvæmni þess að leigja. Þá segir að í landshlutum þar sem leiguíbúðir séu færri sé hlutfallið hins vegar oft lægra þar sem leigusalar hafi minni hvata til að leigja út íbúðina sína á betri kjörum fyrir leigjendur.