Innflutningsmagn byggingarhráefnis hefur aukist með nokkuð stöðugum hætti á árunum 2013 til 2018 en aukningin var mest í fyrra. Það sem af er ári hefur þó dregið nokkuð úr innflutningi en samdrátturinn er sá mesti sem mælst hefur frá árinu 2010. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Magn innflutnings á byggingarhráefnum getur gefið góða vísbendingu um vænt umsvif íbúðaruppbyggingar hér á landi í náinni framtíð. Þar sem byggingariðnaðurinn reiðir sig að miklu leyti á innflutning gætu slíkar tölur bent á þann fjölda verkefna sem bíða íslenskra byggingarfyrirtækja hverju sinni.
Í skýrslunni segir að þrátt fyrir samdráttinn sé enn meira flutt inn af byggingarhráefni en árið 2017.
Erlendu vinnuafli fer fækkandi
Þá kemur fram að einnig sé hægt að meta horfur í byggingariðnaði með því að mæla fjölda erlendra starfsmanna í greininni. Þar sem þeir séu gjarnan hreyfanlegasta vinnuaflið í greininni fjölgar þeim jafnan ört þegar nóg er til af verkefnum hjá byggingarfyrirtækjum og fækkar sömuleiðis hratt þegar verr árar.
„Á svipuðum tíma og innflutningur byggingarhráefna náði methæðum var fjöldi erlendra starfsmanna í byggingargeiranum einnig í hámarki. Meðfylgjandi mynd sýnir þróunina, en fjöldi starfsmanna í greininni með erlent lögheimili rúmlega nífaldaðist frá ársbyrjun 2015 til ársloka 2017, frá rúmlega hundrað manns og upp í þúsund. Frá því hefur þeim farið fækkandi jafnt og þétt, en ef tekið er tillit til árstíðabreytinga hefur fjöldi erlendra byggingarstarfsmanna minnkað niður í rúmlega átta hundruð manns í ár,“ segir í skýrslunni.
Upplýsingar um bæði innflutning á byggingarhráefnum og fjölda erlendra starfsmanna í byggingariðnaði benda til þess að toppnum á starfseminni hefur verið náð í bili, samkvæmt Íbúðalánasjóði. Enn fremur sýni nýjustu tölur að byggingarfyrirtæki hafi flutt inn minna af hráefnum og erlendum starfsmönnum, sem bendi til þess að þau geri ráð fyrir færri verkefnum á næstunni. Þannig mætti búast við minni íbúðauppbyggingu í náinni framtíð en undanfarna mánuði, þrátt fyrir töluverða starfsemi ef miðað er við síðustu tíu ár.