Um hálfur milljarður gæti tapast í norðlenskri ferðaþjónustu vegna gjaldþrots ferðaskrifstofunnar Super Break en unnið er að því að fá nýja aðila til að fljúga til Akureyrar í vetur þar sem nú þegar er búið að selja um helming þeirra flugsæta sem voru í boði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun.
Móðurfélag bresku ferðaskrifstofunnar Super Break hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og starfsemi Super Break hætt, eins og greint var frá í byrjun þessa mánaðar. Félagið hóf að fljúga milli Bretlands og Akureyrar veturinn 2017 til 2018 og áformaði að halda flugi þangað áfram næsta vetur og bjóða upp á 14 bein flug.
Arnheiður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, segir í samtali við Fréttablaðið þetta verða högg fyrir fyrirtæki á svæðinu. „Við reiknum með að þetta verði um 9.000 gistinætur sem gætu tapast í febrúar og mars og vegna árstíðasveiflna í ferðaþjónustu á Norðurlandi er um mikla veltu að ræða á þessum árstíma.“
Hún segir jafnframt að búið hafi verið að leggja peninga í markaðssetninguna og séu þau að skoða að fá nýja aðila að borðinu. „Við vorum að fara inn í þriðja árið með Super Break og því hefur komið ágætis reynsla á þetta flug.“
Arnheiður vonast hins vegar til að markaðssetningin hafi skilað sér til fleiri aðila og að önnur fyrirtæki séu til í að stökkva á millilandaflug milli Akureyrar og meginlands Evrópu eða Bretlandseyja.