„Það kom mér rosalega á óvart að upplifa þessa heift frá fyrrum starfsfélögum mínum vegna þess að við áttum mjög fína tíma hjá vinnustaðasálfræðingum á sínum tíma og ég vissi ekki að viðkomandi væri með svona svakalega mikla reiði gagnvart mér.“ Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pítara og einn stofnenda flokksins, í ítarlegu viðtali við Mannlíf í dag.
Mikil átök voru innan Pírata í síðasta mánuði þegar Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, fór ófögrum orðum um Birgittu á fundi flokksins. Þar sóttist Birgitta eftir sæti í trúnaðarráðinu en henni var hafnað og voru það þingmenn flokksins sem voru á meðal þeirra sem beittu sér gegn skipun hennar.
Ber ekki kala til neins
Helgi Hrafn sagðist á fundinum meðal annars ekki treysta henni til að halda trúnaði. Hann hefði alfarið verið ósammála því að henni hefði verið ýtt úr flokknum líkt og hún hefði haldið fram og bætti hann því við að hún ýtti frekar undir ósætti en að sætta hlutina.
„Ég fékk smá í magann við að heyra það að Birgittu Jónsdóttur hafi verið ýtt úr flokknum. Nei, Birgitta Jónsdóttir fékk bara ekki að ráða til tilbreytingar. Og þegar Birgitta Jónsdóttir fær ekki að ráða þá upplifir hún ekki höfnun heldur árás og hún svarar því þannig,“ sagði Helgi Hrafn á fundinum.
Birgitta segir í Mannlífi að hún hefði óskað þess að viðkomandi hefði hringt í sig og beðið hana að hitta sig til þess að ræða hlutina. „Það er það sem mér finnst erfitt, ég skil ekki alveg hvað það er sem ég gerði þessu fólki. Eina skýringin sem ég fékk var að ég hefði mikinn sannfæringarkraft og einn þingmaðurinn kvartaði yfir því að ég notaði hann á þingmennina líka.“
Hún segist enn fremur ekki bera kala til þessa fólks eða heift eða neitt í þá áttina.
Ósættið verður opinbert
Fleiri en Helgi Hrafn tjáðu sig um Birgittu í kjölfar fundarins. Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, skrifaði í stöðuuppfærslu á Facebook að hún væri enn að vinna sig úr þessu tímabili og að þessi ár hefðu verðið með þeim erfiðustu í lífi hennar.
Ásta Guðrún deildi viðtali við Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingmann Pírata, með Facebook-færslu sinni þar sem Sara sagði að Birgitta hefði beitt samstarfsfólk andlegu ofbeldi og tók hún undir lýsingar Helga Hrafns á samskiptaháttum hennar.
Birgitta segir í viðtalinu að þetta hafi verið ákveðið áfall. „Það hefði verið í lagi ef þetta hefði bara verið þessi fundur, en þetta virðist ekkert ætla að hætta. Ég verð að vanda mig rosalega mikið að fara ekki í manneskjurnar sem sögðu þetta, mér finnst bara asnalegt að vera í opinberum rifrildum við fyrrvernandi samstarfsfólk. Auðvitað gæti ég sagt alls konar hluti en ég bara sé ekki tilganginn með því. Ef fólk á eitthvað ósagt við mig þá er síminn minn alltaf opinn og ég er mjög aðgengileg manneskja.“
Hægt er að lesa ítarlegt viðtal Mannlífs við Birgittu hér.