Árið 2018 voru heildartekjur einstaklinga á Íslandi um 6,6 milljónir króna að meðaltali eða að jafnaði um 553 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar.
Miðgildi heildartekna var 441 þúsund króna á mánuði og því var helmingur einstaklinga með heildartekjur undir þeirri upphæð og helmingur yfir. Atvinnutekjur voru um 505 þúsund krónur á mánuði að meðaltali sé horft til þeirra einstaklinga sem voru með atvinnutekjur árið 2018. Það er 5,5 prósent hækkun frá fyrra ári.
Tekjur einstaklinga byggja á skattframtölum einstaklinga frá 16 ára aldri. Atvinnutekjur innihalda launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur en heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna sem til dæmis geta verið lífeyris- eða bótagreiðslur.
Miðgildi atvinnutekna var 447 þúsund krónur. Atvinnutekjur einstaklinga á aldrinum 25 til 74 ára voru að meðaltali 571 þúsund krónur á mánuði árið 2018 og var eitt prósent einstaklinga á þeim aldri með að jafnaði tæplega tvær milljónir króna eða meira í atvinnutekjur á mánuði.
Lægstar heildartekjur í Akrahreppi
Meðaltal heildartekna árið 2018 var hæst 8,5 milljónir króna á Seltjarnarnesi og 8,4 milljónir króna í Garðabæ, en það voru einu sveitarfélögin þar sem heildartekjur einstaklinga voru að meðaltali yfir 8 milljónir króna.
Sé hins vegar horft til miðgildis voru heildartekjur nokkuð lægri eða rúmlega 6,2 milljónir króna í báðum sveitarfélögunum. Heildartekjur í Bolungarvík voru 7,6 milljónir króna að meðaltali árið 2018, 7,3 milljónir króna í Kjósahreppi og 7,2 milljónir króna í Kópavogi. Í sjö sveitarfélögum var meðaltal heildartekna undir 5 milljónum króna árið 2018. Lægstar voru heildartekjur í Akrahreppi 4,3 milljónir króna og 4,4 milljónir króna í Húnavatnshreppi.