Á heimasíðunni Synjun.is er staðið að undirskriftasöfnun til þess að skora á forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, að vísa lögum um orkupakka þrjú til þjóðarinnar. Skorað er á alla Íslendinga að skrifa undir söfnunina. Hún snúist um að annaðhvort fari Íslendingar með forræði eigin mála eða að útlendingar ráði förinni.
Fólkið sem stendur að söfnuninni vill ekki koma fram undir nafni en segist vera úr öllum flokkum. Þau vilja jafnframt ekki gefa upp hversu margir hafi skrifað undir söfnunina. Þetta kemur fram í fyrirspurn Kjarnans til forsvarsmanna síðunnar.
Auglýsing
Segja víglínuna skýra
Á vefsíðunni er skorað á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að beita málskotsrétti sínum til þjóðarinnar og „synja staðfestingar á hverjum þeim lögum samþykktum af Alþingi Íslendinga sem fela í sér afsal á yfirráðum Íslendinga yfir náttúruauðlindum okkar, svo sem orku vatnsaflsvirkjana og jarðhitasvæða, drykkjarvatni og heitu vatni, og afsal á stjórn innviða tengdum þeim til erlendra aðila, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir, ríki eða ríkjasambönd, og vísa þannig lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu.“
Jafnframt er skorað á alla íslenska ríkisborgara að skrifa undir áskorunina. „Víglínan er skýr, þeir sem vilja að Íslendingar fari sjálfir með forræði eigin mála annars vegar og hins vegar þeir sem óska sér að útlendingar ráði förinni í íslenskum málefnum,“ segir á heimasíðunni.
Vilja ekki gera undirskriftasöfnunina „pólitíska“
Í svari við fyrirspurninni segir að engar tölur yfir fjölda undirskrifta verði birtar fyrr en nær dragi umræðum á Alþingi um orkupakkann. Fólkið sem stendur að baki undirskriftarsöfnuninni vill ekki koma undir nafni.
„Við sem stöndum að þessu komum úr öllum flokkum og tókum ákvörðun um að vera ekki að tróna okkur fram sem persónum í þessu verkefni, enda er málið mun stærra en það og fyrir alla muni viljum við ekki að gera undirskriftasöfnunina pólitíska.“
Í samtali við Kjarnann segir Gundi Jónsson, sem skráður er fyrir léni heimasíðunnar, að fleiri en hann standi að baki heimasíðunni þó hann sé skráður fyrir léninu. Í bækling sem dreift var með Morgunblaðinu í morgun er heimasíðan auglýst. Bæklingurinn ber nafnið „Kjósum um orkupakkann,“ og fylgdi með Morgunblaðinu. Í honum segir að með orkupakkanum muni virkjunum fjölga og fólk er jafnframt hvatt til að skora á Katrínu Jakobsdóttur að setja orkupakkann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Gundi segir að heimasíðan hafi fengið að fljóta með bæklingnum í kjölfar þess að haft var samband við bakhjarla heimasíðunnar og þau beðin um að vera með. „Þetta er samt ekki tengt, það er engin tenging þarna á milli,“ segir hann.