Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að sterkar vísbendingar séu um að íslenska lífeyriskerfið sé offjármagnað og að það detti varla nokkrum manni í hug að lífeyrissjóðunum takist að standa við þau loforð um lífeyrisgreiðslur sem gefin hafa verið með því að reiða sig alfarið á markaðslegar forsendur. „Af orðræðunni að dæma má því álykta að helstu varðhundar núverandi kerfis séu haldnir einhverskonar Ponzi heilkennum.“
Þetta kemur fram í langri stöðuuppfærslu Ragnars Þórs á Facebook þar sem hann fer yfir stöðu lífeyrissjóðakerfisins. VR skipar helming stjórnarmanna í stjórn næst stærsta lífeyrissjóð landsins, Lífeyrissjóð verzlunarmanna.
Hagkerfið þarf að standa undir of hárri ávöxtunarkröfu
Ragnar Þór segir að reiknuð ávöxtunarkrafa sjóðanna sé 3,5 prósent og að ef hún standist þá telji sjóðirnir sig geta staðið undir 74-76 prósent af meðallaunaréttindum. „Þetta þýðir að hagkerfið, fyirrtækin og einstaklingar, þurfa að standa undir ríflega 117 milljarða ávöxtunarkröfu sjóðanna sem er til viðbótar þeim 170 milljörðum sem tekin eru í iðgjöld á ári hverju og fer hækkandi. Miklar innlendar eignir sjóðanna gera því ríka kröfu á aukna arðsemi af innlendum fjárfestingum þeirra. Þetta skilar sér í hærri vöxtum (minni lækkun). Þó markaðsvextir hafi lækkað mikið undanfarið hafa lífeyrissjóðir aukið gríðarlega álagningu sína ofan á markaðsvexti, þó svo þeir hafi lækkað mikið hefur lækkunin því aðeins skilað sér að hluta til neytenda ekkert ósvipað því og olíufélögin gera þar sem ávinningur af gengisstyrkingu og lækkun á heimsmarkaði virðist skila sér seint og illa til neytenda öfugt við það þegar þróunin er í hina áttina.“
Sjóðirnir hafa samt aukið erlendar eignir sínar, sem er tvíeggja sverð, þar sem rekja má veikingu krónunnar síðasta árs til aukinna umsvifa lífeyrissjóða í erlendum fjarfestingum. Veikingin skilar sér svo hærra vöruverði og lægri kaupmætti greiðandi og þiggjandi sjóðfélaga.“
Margir spenar sjúga fast
Ragnar Þór gagnrýnir einnig yfirbyggingu og rekstrarkostnað sjóðanna, en í dag eru alls 22 sjóður með aðild að Landssambandi lífeyrissjóða. Það telur Ragnar Þór vera allt of háa tölu og að það sé „galið“ af 360 þúsund manna þjóða að vera með slíka yfirbyggingu. „Sem dæmi má nefna að árið 2016 greiddu 11 stærstu lífeyrissjóðirnir 43 æðstu stjórnendum sínum ásamt stjórnarmönnum rúmlega 940 milljónir í laun. Árið 2018 var þessi sami kostnaður kominn yfir einn milljarð. Annar rekstrarkostnaður ásamt uppgefnum og áætluðum fjárfestingargjöldum nam rúmlega 13,7 milljörðum króna árið 2016 hjá 11 lífeyrissjóðum af 22 en er komin yfir 15 milljarða hjá þessum 11 fyrir árið 2018 og eru þetta varlega áætlaðar tölur sem eru teknar úr ársreikningum sjóðanna. Það eru fjölmargir spenar á kerfinu og margir sem sjúga fast.“
Efast um getu sjóðanna til að standa við loforð
Ragnar Þór segir að ekkert sé vitað um raunverulegar eignir sjóðanna fyrr en þær verði seldar. „Sagan hefur kennt okkur að markaðir munu sveiflast með tilheyrandi kreppum og kerfishrunum. Er hægt að bjarga þessu kerfi og hvernig verður það gert? Já það er hægt. Fyrst verðum við að viðurkenna vandann og setjast niður og fara í heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu, kostum þess og göllum, og hvaða leiðir eru bestar til að tryggja betur réttindi og jafna þau frekar til framtíðar.
Þetta segir Ragnar Þór að hljómi ótrúlega og að kerfið sé vissulega ótrúlegt. „Það dettur varla nokkrum manni í hug að sjóðunum takist að standa við þessi loforð með því að reiða sig alfarið á markaðslegar forsendur? Af orðræðunni að dæma má því álykta að helstu varðhundar núverandi kerfis séu haldnir einhverskonar Ponzi heilkennum.“
Lífeyrissjóðir í 50 ár. 1. hluti. Nú berast fréttir af mikilli hækkun eigna lífeyrissjóða sem í lok Júní mánaðar voru...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Saturday, August 10, 2019