Þrettán manns var sagt upp störfum hjá fjölmiðla-- og fjarskiptafyrirtækinu Sýn í dag, samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Á meðal þeirra eru dagskrárgerðarmaðurinn Hjörvar Hafliðason, sem hefur starfað í sjónvarpi og útvarpi árum saman, og fréttamennirnir Kristín Ýr Gunnarsdóttir og Sighvatur Jónsson, sem starfa á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar.
Boðað var til starfsmannafundar hjá Sýn klukkan 14 í dag og stendur hann nú yfir.
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars í fyrra. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
365 miðlar fengu greitt fyrir með 10,92 prósent hlut í Sýn, tæplega 1,6 milljarði króna í reiðufé auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum. Eigendur 365 miðla, sem eru félög tengd Ingibjörgu Pálmadóttur, seldu eignarhlutinn sinn í Sýn í október í fyrra á tvo milljarða króna. Því má segja að þeir hafi fengið um 3,6 milljarða króna í reiðufé út úr sölunni auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af skuldum 365 miðla. Samanlagt er kaupverðið samkvæmt því um 8,2 milljarðar króna.
Í sátt sem Sýn gerði við Samkeppniseftirlitið vegna kaupana þá skuldbatt félagið sig til að halda áfram rekstri þeirra fjölmiðla sem voru andlag kaupanna næstu þrjú ár. Í því fólst meðal annars áframhaldandi rekstur fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar eða sambærilegra fréttastofa. Þessi skuldbinding var þó ekki án fyrirvara. Í sáttinni segir að félagið geti „gert breytingar á framboði frétta eða framleiðslu íslensks efnis vegna verulegra utanaðkomandi neikvæðra breytinga á markaðsaðstæðum.“
Hagnaður í fyrra langt undir væntingum
Miklar sviptingar hafa verið hjá Sýn undanfarin misseri, en kaupin á fjölmiðlunum hafa ekki skilað þeim árangri sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaður félagsins í fyrra var til að mynda 473 milljónir króna, sem var langt undir væntingum. Ekkert félag í Kauphöllinni lækkaði meira í virði en Sýn á síðasta ári, en virði bréfa þess fór niður um 38,3 prósent.
Þá misstu fjölmiðlar Sýn réttinn af einni af sínum vinsælustu vörum, Enska boltanum, í lok árs í fyrra og færast sýningar á honum yfir til Símans frá og með því tímabili sem nú er nýhafið.
Þrír stjórnendur Sýnar hafa verið látnir fara á þessu ári. Í lok febrúar, rúmum tveimur mínútum eftir að uppgjör félagsins vegna ársins 2018 var birt, barst tilkynning um að Stefán Sigurðsson, forstjóri félagsins, hefði náð samkomulagi um að hætta störfum.
Í byrjun árs voru tveir aðrir reknir, þar á meðal Björn Víglundsson, sem var yfir miðlum félagsins. Hans hlutverk hafði sérstaklega verið að leiða samþættingu fjölmiðlahluta Sýnar við aðrar einingar Fjarskipta og vinna að vöruþróun.
Í ársuppgjörinu kemur fram að áhrif starfsloka stjórnenda hjá Sýn á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 137 milljónum króna.
Birta uppgjör síðar í mánuðinum
Sýn hefur ekki birt uppgjör sitt vegna annars ársfjórðungs, en mun gera það 28. ágúst. Félagið skilaði 670 milljónum króna hagnaði á fyrsta ársfjórðungi, sem er hækkun um 619 milljónir króna milli ára. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði á ársfjórðungnum er vegna þess að bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun þessa árs. Alls nemur bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna. Án hans hefði verið tap á rekstri Sýnar á ársfjórðungnum.
Tekjur Sýnar á tímabilinu voru 4.975 milljónir króna sem er lækkun um eitt prósent frá sama tímabili í fyrra, þegar tekjur voru 5.030 milljónir króna. Ef verðbólga er tekin inn í dæmið þá var samdrátturinn í rauntekjum meiri en áðurnefnt eitt prósent. Kostnaðarverð jókst að sama skapi og dróst framlegð saman um 118 milljónir króna milli ára.
Tekjur Sýnar samanstanda úr nokkrum stoðum. Sú eina þeirra sem skilaði meiri tekjum í ár en á sama ársfjórðungi 2018 var sala á internetþjónustu. Tekjur vegna fjölmiðlunar, farsíma, fastlínu og vörusölu drógust allar saman.
Von er á ítarlegri kynningu á stefnumótun Sýnar í næsta uppgjöri félagsins.
Heiðar ráðinn forstjóri í apríl
Í lok apríl var greint frá því að Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, hefði verið ráðinn forstjóri Sýnar. Hann hætti á sama tíma sem stjórnarformaður félagsins, en Heiðar er einn stærsti hluthafi Sýnar með 6,4 prósent eignarhlut. Heiðar hafði gegnt starfi forstjóra tímabundið í nokkrar vikur áður en að hann var ráðinn í starfið.
Nokkrum dögum síðar var greint frá því að Þórhallur Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, hefði verið ráðinn sem framkvæmdastjóra Miðla hjá fyrirtækinu. Hann tók við starfinu 22. maí en undir sviðið heyra meðal annars fjölmiðlarnir Stöð 2, Stöð 2 sport og útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og Xið977 auk Vísis.
Á sama tíma var Signý Magnúsdóttir ráðin fjármálastjóri Sýnar frá og með 1. júní síðastliðnum.