Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun koma í opinbera heimsókn til Íslands 4. september næstkomandi. Pence mun einnig heimsækja Bretland og Írland í þessari ferð þar sem hann kemur fram fyrir hönd Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu sem birt var í gærkvöldi. Upphaflega stóð þar að Pence myndi koma 3. september en í leiðréttri tilkynningu var heimsóknin færð um einn dag. Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við þetta. Þar segir að í ferð sinni til Íslands muni Pence undirstrika mikilvægi Íslands á Norðurslóðum og ræða aðgerðir NATO til að vinna gegn auknum yfirgangi Rússa á því svæði. Þá muni hann ræða tækifæri til að ræða aukningu á viðskiptum og fjárfestingum milli landanna, en enginn fríverslunarsamningur er í gildi sem stendur milli Íslands og Bandaríkjanna.
Í kjölfar Íslandsheimsóknar Pence mun hann halda til Bretlands þar sem megintilgangur heimsóknarinnar verður að ræða styrkingu efnahagslegra samskipta Bandaríkjanna og Bretlands í kjölfar Brexit, sem fyrirhugað er að verði 31. október næstkomandi. Þá mun Pence ræða aðgerðir til að vinna gegn aukinni fyrirferð Íran í Miðausturlöndum og víðar og aukin áhrif Kínverja, meðal annars á þróun 5G fjarskiptakerfa.
Pence fer þaðan til Írlands til að hitta Leo Varadkar, forsætisráðherra landsins, til að koma á framfæri skuldbindingu Bandaríkjanna við frið, velsæld og stöðugleika á Írlandi með því að viðhalda friðarsamkomulaginu á Norður- Írlandi sem gert var í kringum síðustu aldarmót. Varaforsetinn ætlar einnig að ræða mögulega styrkingu á efnahagssamskiptum Bandaríkjanna við Írland.
Hvíta húsið hefur sagst vera tilbúin að gera stóran fríverslunarsamning við Breta gangi þeir út úr Evrópusambandinu. Slíkan samning þyrfti hins vegar að samþykkja í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem demókratar eru í meirihluta. Nancy Peloci, forseti fulltrúadeildarinnar, sagði í gær að slíkur samningur myndi ekki verða samþykktur í deildinni ef hann setti friðarsamkomulagið á Norður-Írlandi í hættu, en eitt helsta bitbeinið í deilum Breta við Evrópusambandið um útgöngu þeirra snýr að því hvort að landamæraeftirlit verði tekið upp á landamærunum milli Írlands og Norður-Írlands.