„Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um málefni tengd Seðlabanka Íslands. Fjallað hefur verið um ný lög um Seðlabankann, umsækjendur um stöðu seðlabankastjóra og ásakanir um mistök í rekstri stofnunarinnar. En í þessari umfjöllun hefur ekki verið minnst á það sem miklu máli skiptir að á síðustu tíu árum hefur tekist að reka sjálfstæða peningastefnu með góðum árangri. Fyrir tíu árum var óvíst hvort svo lítið hagkerfi gæti haft sjálfstæðan gjaldmiðil og efnahagslegan stöðugleika en nú vitum við að það er hægt með skynsamri og agaðri peningastefnu.“ Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í ítarlegri grein í Vísbendingu.
Hann bendir á að atvinnuleysi og verðbólga hafi farið lækkandi og hagvöxtur verið jákvæður síðan um mitt ár 2010. Viðskiptaafgangur hafi einnig verið á hverju ári, hrein eignastaða gagnvart útlöndum aldrei verið betri og gjaldeyrisforði aldrei meiri. Væntingar um verðbólgu séu betur njörvaðar niður.
Þá spyr hann af hverju hafi tekist síðustu tíu árin að reka sjálfstæða peningastefnu með góðum árangri. Hann segir svarið við spurningunni felast í því að öllu skipti að reglur og stofnanir fjármálamarkaða hvetji til ákvarðana sem stefna ekki stöðugleika fjármálakerfisins í voða og að vinnulag við ákvarðanir um beitingu stjórntækja séu í lagi. Nafnið á gjaldmiðlinum skipti minna máli.
Eftirmálar fjármálakreppu
Gylfir segir að við því hafi verið að búast að hagkerfi næði sér smám saman á strik í kjölfar fjármálakreppu. Tæknilega gjaldþrota fyrirtæki hafi verið gerð upp, skipt hafi verið um eigendur og skuldir felldar niður. Framleiðsluþættir hafi leitað í nýjar útflutningsgreinar. Og bankar sem áður juku útlán af miklum móði hafi þurft að einbeita sér að því að hreinsa útlánasöfnin og ekki lengur haft sama aðgang að erlendu lánsfé í sama mæli og áður. Hinir áhættusæknu eigendur sem áður stýrðu hafi heldur ekki lengur verið við stjórnvölinn.
„En síðustu árin hefur verið mikil uppsveifla í þjóðarbúskapnum sem ekki skýrist af áfallinu fyrir tíu árum. Í þessari uppsveiflu hefur, ólíkt því sem áður var, afgangur verið á viðskiptum við útlönd, skuldsetning ekki vaxið úr hófi fram, verðbólga verið hófleg og vextir lágir í sögulegu samhengi,“ skrifar hann.
Framtíðin mun leiða í ljós hvort áfram tekst að ná góðum árangri
Í lok greinarinnar greinir Gylfi frá því að hann telji helstu hættuna sem steðji að peningastefnu og stöðugleika stafa af afskiptum stjórnmála af lögum og mannaráðningum en stjórnmálaöflin séu óþreytandi að berjast um hver hafi völdin yfir hinum „sjálfstæða“ seðlabanka. „Það stafar einnig hætta af fjármálastofnunum sem reglulega hafa í frammi málflutning í þá átt að krónan eigi aftur að verða notuð í vaxtamunarviðskipskiptum, að innlend fjármálafyrirtæki eigi að geta hagnast á að selja útlendingum innlend skuldabréf. Slíkt myndi valda hækkun á gengi krónunnar, viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, eins og gerðist árin fyrir 2008. Ef opnað er fyrir slíkt innflæði má segja að forsenda fyrir sjálfstæðri peningastefnu sé brostin og Ísland verði þá, eins og margfalt stærri smá ríki, að fylgja peningastefnu stórveldanna með meðfylgjandi eignaverðbólum, viðskiptahalla og hættu á fjármálaáföllum.“
Hann bendir enn fremur á að nýlega hafi lögum um Seðlabankann verið breytt með sameiningu hans og Fjármálaeftirlitsins ásamt því sem ýmsar aðrar breytingar hafi verið gerðar, til að mynda á samsetningu peningastefnunefndar. „Framtíðin mun leiða í ljós hvort áfram tekst að ná góðum árangri. Reynslan síðasta áratuginn er samt staðfesting þess að það er hægt ef vilji er fyrir hendi.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér, en vitnað er til hluta greinarinnar hér að ofan, sem kemur til áskrifenda á föstudögum.