Nýjar íbúðir við Hverfisgötu 85 til 93 eru nú komnar á sölu. Á fasteignavef Mbl.is má finna auglýsingu frá fasteignasölunni Mikluborg en í henni kemur fram að ásett verð á nýja tveggja herbergja íbúð í húsinu sé 38,9 milljónir króna. Íbúðin er 46,4 fermetrar að stærð sem þýðir að fermetraverðið er 838 þúsund krónur.
Íbúðin er á annarri hæð með svölum og stæði í bílgeymslu og skiptist eignin í forstofu, baðherbergi, eldhús opið inn í stofu og svefnherbergi. Geymsla er í kjallara. Fermetraverðið lækkar aðeins þegar íbúðirnar stækka og er til að mynda 70,9 fermetra íbúð sett á 46,9 milljónir króna. Fermetraverðið á henni er því rúmar 660 þúsund krónur.
Á vefsíðu Vitaborgar kemur fram að húsið sé fimm hæðir með 70 íbúðum og tveim atvinnurýmum á jarðhæð við Hverfisgötu. Í húsinu eru 57 tveggja herbergja íbúðir, 12 þriggja herbergja og ein fjögurra herbergja. Stærð íbúða er á bilinu 44 til 122 fermetrar. Bílastæði í bílakjallara fylgja öllum íbúðum.
Fermetraverð nýbygginga hærra en annarra íbúða
Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs frá því í maí síðastliðnum kemur fram að ásett verð nýbygginga hækki nú hraðar en ásett verð annarra íbúða. Auglýst fermetraverð í nýbyggingum á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 8 prósent síðastliðið ár samanborið við 5 prósent hækkun á ásettu verði annarra íbúða. Ásett fermetraverð nýbygginga mældist 100.000 króna hærra en annarra íbúða og var fermeterinn á um 600.000 krónur.
Í skýrslunni segir að nýjar íbúðir seljast nú í auknum mæli undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu. Tæplega helmingur allra seldra nýbygginga selst nú undir ásettu verði samanborið við um um 80 prósent eldri íbúða. Í janúar til mars í fyrra seldust að meðaltali 33 prósent nýrra íbúða undir ásettu verði en fyrstu þrjá mánuði þessa árs var það hlutfall 48 prósent.
Aðrar íbúðir en nýbyggingar hafa í gegnum tíðina verið talsvert líklegri til að seljast undir ásettu verði og fyrri hluta árs mælist það hlutfall að meðaltali 81 prósent. Á sama tímabili í fyrra var það hins vegar um 79 prósent.
Á sama tíma hefur ásett verð hækkað hraðar á nýbyggðum íbúðum en á öðrum innan höfuðborgarsvæðisins. Í apríl síðastliðnum var auglýst fermetraverð í nýbyggingum að meðaltali um 8 prósent hærra en í apríl 2018 en í öðrum íbúðum hækkaði auglýst meðalfermetraverð um 5 prósent á sama tímabili.