Sjálfstæðisflokkurinn er enn stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt nýjustu könnun MMR með 19,1 prósent fylgi. Það er sama fylgi og flokkurinn mældist með í síðasta mánuði, en fylgi flokksins hefur ekki mælst minna frá því í bankahruninu.
Samfylkingin bætir verulega við sig fylgi milli mánaða og mælist nú með 16,8 prósent fylgi. Það er 4,4 prósentustigum meira en flokkurinn mældist með í júlí.
Miðflokkurinn bætir einnig aðeins við sig hjá MMR og mælist nú með 13 prósent fylgi, sem er aðeins meira en þau 12,4 prósent sem flokkurinn mældist með í júlí.
Framsóknarflokkurinn bætir einnig við sig fylgi og myndi fá 10,4 prósent ef kosið væri í dag en nauð stuðnings 8,3 prósent kjósenda í síðasta mánuði.
Fylgi Pírata dregst umtalsvert saman milli mánaða og mælist nú 11,3 prósent. Flokkurinn mældist með 14,1 prósent í júlí og var þá annar stærsti flokkur landsins, en er nú í fimmta sæti.
Vinstri græn, flokkur forsætisráðherra, mælist með 11,5 prósent fylgi eða einu prósentustigi minna en fyrir mánuði.
Viðreisn yrði síðasti flokkurinn sem næði inn manni á þing en fylgi flokksins mælist 9,3 prósent, sem er aðeins minna en í júlí. Flokkur fólksins tapar 2,7 prósentustigum milli mánaða og næði ekki inn á þing með sitt 4,1 prósent fylgi. Það myndi Sósíalistaflokkur Íslands ekki heldur gera, en 2,9 prósent segja að þeir myndu kjósa þann flokk.
Könnunin var framkvæmd 12. - 19. ágúst 2019 og var heildarfjöldi svarenda 990 einstaklingar, 18 ára og eldri.