Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist ekki hafa neinar efasemdir um að Bretlandi muni blómstra eftir að hafa yfirgefið Evrópusambandið, hvort sem það muni fara úr því með eða án samnings. Frá þessu greinir hann í pistli á breska miðlinum The Spectator í dag.
Hann segist tala sem fyrrverandi forsætisráðherra Íslands – ríkis sem yfirgaf Evrópusambandið áður en það fékk inngöngu. Ríkis sem hélt áfram að dafna sem annars hefði verið ómögulegt ef umsóknin um aðild hefði náð fram að ganga. „Ég tel að Bretland geti lært af reynslu Íslands og fundið leið til að kom í veg fyrir meiriháttar upplausn þegar 31. október rennur upp,“ skrifar hann.
Þá fjallar Sigmundur Davíð um eftirmála fjármálahrunsins hér á á landi árið 2008; þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og hvernig stjórnvöld, undir hans forystu, drógu umsóknina til baka sex árum seinna. „Ég komst að þeirri niðurstöðu að afturköllun umsóknarinnar væri óhjákvæmileg til þess að við gætum gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru til þess að endurreisa hagkerfið með góðum árangri.“
Finnst að ESB ætti ekki að refsa Bretum
Sigmundur Davíð segir að ákvörðun ríkisstjórnar hans um að afturkalla umsóknina um aðild að ESB hafi að sjálfsögðu mætt andstöðu hjá alþjóðasinnum – erlendum sem innlendum. Í hverju skrefi hefði stórslysi verið spáð og líkir hann umræðunni þá við umræðuna um Brexit nú.
Hann segir að vissulega muni verða neikvæðar skammtímaafleiðingar fyrir Bretland að yfirgefa ESB og veltir hann því fyrir sér hvað hægt sé að gera til að forðast þær afleiðingar.
Hann leggur til að Bretland gerist aðili að EES-samningnum tímabundið, ásamt Íslandi, Noregi og Liechtenstein og auðvitað ESB. Sú aðild gæti varað í nokkur ár eða jafnvel lengur. Hann rekur enn fremur afleiðingar þess í greininni, kosti og galla.
Í lok greinarinnar segir Sigmundur Davíð að ef ESB ætli að refsa einu aðildarríki sínu fyrir að fara úr sambandinu þá sé það ekki góð auglýsing fyrir ESB. „Ef svo verður, því fyrr sem Bretar fara úr ESB því betra,“ skrifar hann.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.