Flestir erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi eru frá Póllandi eða 20.146. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Þjóðskrár.
Pólskum ríkisborgurum hefur fjölgað um 5 prósent frá 1. desember síðastliðnum eða um 956.
Alls voru 47.304 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi þann 1. ágúst síðastliðinn og hefur þeim fjölgað um 3.148 frá 1. desember 2018 eða um 7,1 prósent. Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem eru búsettir hér á landi um 0,5 prósent.
Í hagtölunum kemur jafnframt fram að 4.455 einstaklingar séu með litháískt ríkisfang og hafi þeim fjölgað um 8,8 prósent eða um 361 á sama tímabili.
Flutningsjöfnuðurinn aldrei verið hærri en síðustu tvö ár
Árið 2018 fluttust 6.556 fleiri til Íslands en frá landinu. Það eru nokkuð færri en metárið 2017 þegar aðfluttir umfram brottflutta voru 8.240. Flutningsjöfnuður hefur aldrei verið hærri en síðustu tvö ár en næst þeim koma árin 2006 og 2007 þegar um 5.200 fleiri fluttust til landsins en frá því.
Í fyrra fluttust alls 3.897 einstaklingar með pólskt ríkisfang til landsins og Pólverjar voru einnig fjölmennastir þeirra erlendu ríkisborgara sem fluttu frá landinu árið 2018 eða alls 1.707 einstaklingar.