Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 2,9 prósent. Á sama tímabili hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,1 prósent. Því hefur orðið raunlækkun á fasteignaverði á síðustu tólf mánuðum.
Minnsta hækkun íbúðaverðs síðan í apríl 2011
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár stóð vísitala íbúðaverðs höfuðborgarsvæðisins í 625,7 stigum í júlí 2019 og hafði hækkað um 0,1 prósent milli mánaða. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 0,6 prósent, en hækkunin nam 0,4 prósentum ef miðað er við síðasta hálfa árið.
Tólf mánaða hækkun vísitölunnar mældist í júlí einungis 2,93 prósent en það er minnsta hækkun sem mælst hefur á íbúðaverði frá því í apríl 2011. Til samanburðar mældist hækkunartakturinn 3,15 prósent í júní og 3,86 prósent í maí.
Í júlímánuði mældist vísitala neysluverðs 468,8 stig og lækkaði um 0,2 prósent milli mánaða. Tólf mánaða verðbólga mældist 3,1 prósent í júlí en án húsnæðisliðar 2,8 prósent, samkvæmt tölum Hagstofunnar.