Stýrihópur dómsmálaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur gefið út nýjan fræðslubækling sem beinist að því að fræða almannaheillafélög um góða stjórnarhætti til að koma í veg fyrir að starfsemi þeirra sé misnotuð. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Almannaheillafélag er ýmist lögaðili eða félagasamtök sem fást aðallega við að safna eða ráðstafa fé í þágu góðgerða, mennta og mannúðar, eða fyrir trúarlegan, menningarlegan eða félagslegan tilgang. Í þessum nýja bæklingi segir að slík félög gegni mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Um sé að ræða félög sem taka þátt í hvers konar góðgerðarstarfi sem varða meðal annars húsnæði, samfélagslega þjónustu, menntun, heilbrigði, íþróttastarf og menningarstarf. Almannaheillafélög hér á landi eru meðal annars skráð trú- og lífsskoðunarfélög, sjóðir og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sjálfseignarstofnanir og önnur almannaheillafélög.
Í bæklingnum kemur fram að líkt og önnur félög geti almannaheillafélög verið misnotuð með ýmsum hætti. Dæmi um slíka misnotkun sé til að mynda peningaþvætti, fjársvik, skattsvik og fjármögnun hryðjuverka. Þessu fræðsluefni, sem byggir á tilmælum Alþjóðlega fjármálaaðgerðarhópsins, er ætlað að efla skilning almannaheillafélaga á því hvernig þau geta verið misnotuð til fjármögnunar hryðjuverka og hvernig megi draga úr hættu á misnotkun.
Gagnsæi í meðferð fjármuna og traust fjárhagslegt eftirlit dregur úr misnotkun
„Þótt að hér sé áhersla lögð á leiðbeiningar til að draga úr mögulegri misnotkun á almannaheillafélögum til fjármögnunar hryðjuverka, nýtast þær einnig til að draga úr áhættu á annars konar fjárhagslegri misnotkun,“ segir í bæklingnum.
Margt bendir til þess að almannaheillafélög séu helst útsett fyrir misnotkun af hryðjuverkasamtökum þegar þau reka þjónustu á svæðum með virka eða mikla hryðjuverkaógn. Almannaheillafélög sem veita þjónustu á slíkum svæðum virðast verða viðkvæmari fyrir misnotkun við áföll á borð við náttúruhamfarir eða sambærileg áföll þegar eftirspurn eftir fjármagni almannaheillafélaganna eykst. Skyndileg aukin eftirspurn eftir fjármunum félaganna eykur álag á starfsmenn, sem kann að leiða til þess að yfirsýn og fylgni við verkferla verður minni.
Þá kemur fram í bæklingnum að gagnsæi í meðferð fjármuna og traust fjárhagslegt eftirlit dragi úr misnotkun. Almannaheillafélög ættu að stuðla að gagnsæi við meðferð fjármuna með því að koma upp verklagi svo rekja megi fjármuni, þjónustu, útbúnað og millifærslur félagsins til að draga úr hættu á fjármögnun hryðjuverka.
Ísland fékk falleinkunn
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um slakar varnir Íslendinga gegn peningaþvætti undanfarin misseri. Í byrjun janúar síðastliðins greindi Kjarninn frá því að í fyrravor hefði Ísland fengið aðvörun. Annað hvort myndu stjórnvöld taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, var spurður út í það í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október síðastliðinn hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ svaraði Ólafur, „nei, það er það ekki.“
Í úttekt samtakanna um stöðu mála á Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn. Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Ný lög tóku gildi
Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Bregðast þurfti við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.
Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um ný heildarlög þann 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember síðastliðinn og síðari tvær umræður kláraðar daginn eftir án annarra ræðuhalda.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt væri að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þyrfti verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.