Mynd: Pexels.com

Ísland átti á hættu að rata á listi yfir ósamvinnuþýð ríki vegna lélegra varna gegn peningaþvætti

Ísland hefur áratugum saman ekki sinnt almennilegu eftirliti með peningaþvætti, þótt stórtækir fjármagsflutningar inn og út úr efnahagskerfinu séu mjög tíðir. Í fyrra var Íslandi settir afarkostir. Landið þurfti að laga löggjöfina sína og herða eftirlit, annars myndi það hafa miklar alþjóðlegar afleiðingar. Ný lög um varnir gegn peningaþvætti tóku gildi um áramót.

Í fyrravor fékk Ísland aðvörun. Annað hvort myndu stjórnvöld þar taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) um ósamvinnuþýð ríki.

Í úttekt samtakanna á stöðu mála Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn. íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.

Íslendingar litu ekki á rannsóknir á þvætti sem forgangsmál

Í peningaþvætti felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með löglegum. Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.

Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eignir.

Á meðal þess sem fram kom í skýrslu FATF, sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, var að íslensk stjórnvöld litu ekki á rannsóknir á peningaþvætti sem forgangsmál. Þeir litlu fjármunir sem settir eru í að koma upp um, rannsaka og saksækja peningaþvætti eru þar lykilatriði. Afleiðingin er meðal annars sú að takmarkaðar skráningar hafa verið á grunsamlegum tilfærslum á fé utan þess sem stóru viðskiptabankarnir og handfylli annarra fjármálafyrirtækja framkvæma. Þá skorti einnig á að að upplýsingum um hreyfingar á fé og eignum sé deilt með viðeigandi stofnunum í öðrum löndum.

Peningaþvættisskrifstofa var lengi starfrækt innan Efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Þar starfaði einn einstaklingur og árangur af starfseminni lítill sem enginn. Skrifstofan var færð yfir til embættis héraðssaksóknara um mitt ár 2015. Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, var spurður af því  í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október síðastliðinn hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“

Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.

Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.

Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi á þriðjudag, þann 1. janúar 2019.

Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt yrði að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.

Eftirlitsaðilum gert skylt að tilkynna um grunsamleg viðskipti

Á meðal þeirra breytinga sem nýju lögin hafa í för með sér er að ákvæði um einstaklinga „í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla“ eru ítarlegri en í gömlu lögunum. Til þessa hóps teljast þeir sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu, nánasta fjölskylda þeirra og einstaklingar sem vitað er að eru nánir samstarfsmenn þeirra. Samkvæmt nýju lögunum þurfa tilkynningaskyldir aðilar, t.d. bankar eða aðrar fjármálastofnanir, að hafa viðeigandi „kerfi, ferla og aðferðir til að meta hvort innlendur eða erlendur viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi sé í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.“

Það var ákvæði um raunverulega eigendur gert ítarlegra. Þannig þurfi til að mynda að gera greinarmun á lagalegum eigendum og raunverulegum eigendum t.d. fjárvörslusjóða sem oft eru einungis skráðir í eigu fjárstýringarfyrirtækja án þess að fyrir liggi hvaða einstaklingar eigi fjármunina sem í sjóðunum eru.

Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknar fær nýtt nafn, skrifstofa fjármálagreininga lögreglu. Öllum opinberum aðilum er nú skylt að tilkynna henni um grunsamleg viðskipti og sú tilkynningaskylda víkur allri þagnarskyldu stjórnvalda til hliðar.  

Þetta er mikil breyting frá því sem áður var. Seðlabanki Íslands, sem hélt úti hinni svokölluðu fjárfestingaleið á árunum 2012-2015, þar sem 1.100 milljónir evra voru fluttir til landsins og skipt í krónur með allt að 20 prósent virðisaukningu, leit til að mynda ekki á það sem sitt hlutverk að kanna hvort þeir sem fluttu fjármagn með þessum hætti inn í íslenskt efnahagskerfi væru mögulega að þvætta peninga eða ekki. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um málið snemma árs 2017 kom fram að Seðlabanki Íslands taldi viðskiptabanka viðkomandi aðila vera þá sem áttu að kanna slíkt. Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki neituðu að svara því hvort þeir hefðu sent slíkar tilkynningar og Kvika banki sagðist ekki hafa sent neina. Peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara sagði í svari við fyrirspurn að eftir því sem næst væri komist hefðu engar tilkynningar borist frá fjármálafyrirtækjum vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingaleiðina.

Þvingunarúrræði og viðurlög

Með nýju lögunum er skipun og hlutverk stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verði lögfest. Helstu verkefni stýrihópsins samkvæmt frumvarpinu, eru að tryggja yfirsýn, samhæfingu og stefnumótun í málaflokknum.

Í stýrihópnum eiga sæti fulltrúar þeirra stjórnvalda sem eiga aðkomu að málaflokknum, sem eru m.a. dómsmálaráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Fjármálaeftirlitið og aðrir eftirlitsaðilar með lögunum, Seðlabanki Íslands, Tollstjóri, skattyfirvöld, Héraðssaksóknari og Lögregla höfuðborgarsvæðisins.

Þá verða verulegar breytingar hvað varðar þvingunarúrræði og viðurlög. Hingað til hafa eftirlitsaðilar með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi nefnilega ekki haft viðeigandi úrræði til þess að bregðast við lögbrotum. Sektir voru einu viðurlögin samkvæmt gömlu lögunum sem eftirlitsaðilar gátu gripið til. Í alvarlegri brotum var hins vegar hægt að ákæra.

Með nýju lögunum fá eftirlitsaðilar heimild til að beita dagsektum, stjórnvaldssektum, birtingum viðurlaga og, í alvarlegri tilvikum, brottvikningu æðstu stjórnenda eða afturköllun starfsleyfa.

Áhrif lagabreytinganna á þorra almennings eru lítil sem engin. Þ.e. þann hluta almennings sem telst ekki til fjármagnseigenda. Slíkir þurfa hins vegar að veita ítarlegri upplýsingar um viðskipti sín, uppruna fjármuna og auðs en áður hefur verið krafist, verði eftir því leitað.

Allir tilkynningaskyldir aðilar, en til þeirra teljast t.d. fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn, fasteignasölur, listmunasalar og þeir sem eiga viðskipti í atvinnuskyni með reiðufé, verður gert að áhættumeta starfsemi sína. Þá eru auknar rannsóknarkröfur lagðar á tilkynningarskylda aðila til að staðfesta með sjálfstæðum hætti þær upplýsingar sem þeir afla hjá viðskiptamönnum í tengslum við áreiðanleikakönnun.

Eftirlit í lamasessi

Nýju lögin taka þó ekki á því sem þegar hefur átt sér stað. Fjármagnsflutningar inn og út úr íslensku efnahagskerfi eru sannarlega ekki nýir af nálinni og uppi er rökstuddur grunur um að þar hafi lög og reglur ekki alltaf verið í forgrunni þegar slíkir voru framkvæmdir. Eftirlit með því hvort að þvætti fælist í umræddum fjármagnsflutningum hefur hins vegar verið í lamasessi. 

Á árunum fyrir bankahrunið færðu íslenskir fjármagnseigendur mikið magn fjármuna út úr íslensku efnahagskerfi og komu fyrir á bankareikningum með heimilisfesti í löndum þar sem skattar voru litlir eða engir og upplýsingagjöf stjórnvalda um þá sem stunduðu bankastarfsemi í löndunum lítil eða engin. Þetta eru lönd á borð við Bresku Jómfrúareyjarnar, Caymaneyjar og Panama en oftast voru reikningar og félög í þeim löndum sett upp fyrir Íslendinga í gegnum dótturbanka íslensku bankanna þriggja í Lúxemborg.

Hluti þessara Íslendinga hefur fært þessa peninga heim til Íslands eftir hrunið, oftar en ekki í gegnum leiðir sem Seðlabanki Íslands hefur boðið upp á. Þar ber helst að nefna áðurnefnda fjárfestingaleið bankans. Til viðbótar við virðisaukninguna sem þeim bauðst gátu þeir sem þetta gerðu innleyst tugprósenta gengishagnað með þessum hætti og peningarnir þeirra fengu auk þess „heilbrigðisvottorð“, enda færðir inn í landið í gegnum seðlabankann. Þessa peninga var svo hægt að nota til að kaupa eignir á Íslandi á brunaútsöluverði á fyrstu árum eftirhrunsáranna.

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, skrifaði um þetta í grein sem hann birti í Vísbendingu í september 2018. Þar sagði Gylfi: „Sú spurn­ing kom fram hvað hefði orðið um þá þús­undir millj­arða sem teknir voru að láni af íslensku bönk­un­um. Í ljós kom að ekki hefur verið gerð til­raun til þess að finna þessa pen­inga. Það sem liggur fyrir er að eig­endur bank­anna lán­uðu sjálfum sér og eigin eign­ar­halds­fé­lögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af láns­fénu tap­að­ist í erlendum fjár­fest­ingum og hversu miklu var komið undan í skatta­skjól.“

Í skýrslu starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­svæð­um, sem birt var í byrjun jan­ú­ar 2017, var fjallað um fjár­­­fest­ing­­ar­­leið Seðla­­banka Íslands og því meðal ann­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­magn­inu frá aflands­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­fest­ing­­ar­­leið­ina.

Orð­rétt sagði í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­lýs­inga um fjár­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­taka í fjár­­­fest­ing­­ar­­leið Seðla­­bank­ans er ekki til stað­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­bank­ans þegar um grun­­sam­­legar fjár­­­magnstil­­færslur er að ræða. Æski­­legt má telja að sam­­starf væri um miðlun upp­­lýs­inga á milli þess­­ara stofn­ana.“

Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar