Ásgeir Jónsson, nýr seðlabankastjóri Íslands, segir að hann sjálfur og flestir aðrir hafi verið frekar bláeygðir á stöðu bankanna og hina miklu skuldsetningu sem grafið hafði um sig í atvinnulífinu fyrir hrun. Hann segir hins vegar að sú reynsla muni nýtast honum vel sem seðlabankastjóri. Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir í Fréttablaðinu í dag.
Skilur vel reiðina
Ásgeir Jónsson var aðalhagfræðingur Kaupþings og síðar Arion banka á árunum 2004 til 2011. Ásgeir sá meðal annars um þjóðhagsspár bankans fyrir hrun en hann viðurkennir að hann sjálfur og flestir aðrir hafi verið frekar bláeygðir á stöðu bankanna fyrir hrun.
„Íslenska hagkerfið hefur svo margoft farið í gegnum öldudali – þar sem allar uppsveiflur hafa endað með gengisfalli og verðbólguskoti. Það sá ég svo sem alveg fyrir sem og að það yrði samdráttur á fasteignamarkaði. En þegar ég lít til baka átta ég mig á að bæði ég sjálfur og flestir aðrir voru frekar bláeygir á stöðu bankanna og hina miklu skuldsetningu sem hafði grafið um sig í atvinnulífinu,“ segir Ásgeir.
Ásgeir var því í hugum margra andlit Kaupþings og segist Ásgeir því skilja vel reiði almennings í hans garð. Hann segist eftir á hyggja viljað standa öðruvísi að mörgum málum en í kjölfarið viti hann nú fullvel þau víti sem þarf að varast.
„Ég held að ekkert okkar sem vorum í hringiðunni í kringum hrunið séum söm á eftir og ég hefði viljað standa öðruvísi að mörgum málum – eftir á að hyggja,“ segir hann. „Það vilja allir sem að þessu komu. Í hugum margra var ég andlit Kaupþings og ég skil reiðina vel. Ég sjálfur álít að þessi reynsla sé mjög verðmæt fyrir mig sem seðlabankastjóra – ég þekki nú fullvel þau víti sem þarf að varast.“
Útrásin ekki alslæm
Ásgeir segir þó að útrásin hafi ekki verið alslæm og það sem eftir standi séu stór alþjóðleg fyrirtæki sem Íslendingar stóðu að og eru þau fyrirtæki enn starfræk. Hann segir jafnframt að þjóðin öll hafi dregið mikinn lærdóm af hruninu, fyrirtækin, stjórnmál og almenningur sé mun varkárari en áður. Hann segir það sjást best á því hvernig fyrirtæki eru rekin í dag, með minni skuldsetningu og meiri fagmennsku.