Flestir greinendur eru á því að Seðlabanki Íslands muni halda áfram að lækka meginvexti með vaxtaákvörðun sinni á morgun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur formlega tekið sæti í peningastefnunefnd og er í forsæti hennar ásamt Rannveigu Sigurðardóttur, aðstoðarseðlabankastjóra, Þórarni G. Péturssyni aðalhagfræðingi, Katrínu Ólafsdóttur lektor og Gylfa Zoega prófessor.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 3,75 prósent en verðbólga mælist 3,1 prósent. Vextir hafa farið lækkandi að undanförnu, og er búist við því að lækkunin á morgun verði 0,25 prósentustig eða jafnvel 0,5 prósentustig.
Í umfjöllun Landsbankans um komandi vaxtaákvörðun segir að nokkur eftirvænting ríki um hvaða tón Ásgeir muni setja fram, í sinni stefnu, en eins og áður segir telja flestir að áframhald verði á lækkun vaxta, ekki síst til að vinna gegn kólnun í hagkerfinu í kjölfa falls WOW air og loðnubrests. Í umfjöllun Landsbankans kemur fram spá um 0,25 prósentustiga lækkun vaxta. „Næsti fundur verður fyrsti vaxtaákvörðunarfundur Ásgeirs Jónssonar, nýs Seðlabankastjóra. Það verður athyglisvert að sjá hvort koma hans breyti einhverju í vaxtaákvörðunarferli nefndarinnar og hvort honum fylgi þá hertara eða lausara taumhald en hjá Má Guðmundssyni, fyrrum seðlabankastjóra. Ásgeir hefur þegar gefið í skyn í viðtölum að svigrúm kunni að vera til frekari vaxtalækkana,“ segir í umfjöllun Landsbankans.
Á morgun birtast einnig Peningamál Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur uppfærð þjóðhagsspá, en í síðustu spá var gert ráð fyrir að samdráttur yrði í landsframleiðslu upp á 0,4 prósent, en samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur í fyrra 4,6 prósent.