Lögsókn sem beinist gegn Boeing, vegna galla í 737 Max vélunum og alþjóðlegri kyrrsetningu, er nú komin fram, en það er rússneska leiguflugfélagið Avia Capital Services sem hefur höfðað málið.
Það vill ógilda fyrri samning um kaup á vélunum, en samningur fyrirtækisins gerði ráð fyrir kaupum á 35 Max vélum, samkvæmt umfjöllun Financial Times sem greindi frá málsókninni í nótt. Er málið fyrsta málsóknin þar sem þess er krafist að fyrri samningar verði ógildir.
Samkvæmt stefnu félagsins, er málið byggt á því að Max vélarnar hafi verið gallaðar og félagið beri ábyrgð á því að tvær Max vélar fórust, 29. október í fyrra og 13. mars á þessu ári, með þeim afleiðingum að allir um borð létust, samtals 346.
Í kjölfar seinna slyssins tók í gildi alþjóðleg kyrrsetning á vélunum, og hafa viðskiptavinir Boeing, sem voru búnir að gera samning um kaup á vélunum, þurft að bera mikið tjón vegna þessa.
Þar á meðal er Icelandair, eins og fram hefur komið, en félagið gerir nú ráð fyrir að kyrrsetningunni verði ekki aflétt á þessu ári. Samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallar er tjónið metið um 19 milljarðar, miðað við að vélarnar fari í loftið í nóvember, en nú virðist líklegt að það gerist ekki fyrir þann tíma.
Flugmálayfirvöld í hverju landi fyrir sig ráða ferðinni, en Boeing hefur gefið út að það vonist til þess að vélarnar geti farið að fljúga með farþega fyrir árslok.
Icelandair er nú með það til skoðunar að flytja kyrrsettar Max vélar úr landi, þar sem verðurfarslegar aðstæður eru ekki ákjósanlegar en vélarnar standa úti á svæði félagsins á Keflavíkurflugvelli.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, hefur sagt að félagið muni sækja bætur til Boeing, vegna kyrrsetningarinnar, og vinni eftir áætlun um að lágmarka tjónið. Á fyrri helmingi ársins tapaði félagið 11,2 milljörðum króna, eða um 89,3 milljónum Bandaríkjadala.
Í umfjöllun FT um málsókn Avia Capital segir Steven Marks, lögmaður Podhurst Orseck lögmannsstofunnar sem rekur málið, að fleiri málsóknir muni vafalítið koma fram á næstunni. Lögmannsstofan rekur einnig mál um 30 aðstanenda þeirra sem létust í flugslysunum 29. október og 13. mars.