Vísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa, sem Gallup mælir á þriggja mánaða fresti út frá könnun sem fyrirtækið gerir um væntingar neytenda, hækkaði verulega á milli mars og júní mælinga í ár. Hún hefur ekki mælst hærri frá því í september 2007, að því er fram kemur í umfjöllun Landsbankans.
Í umfjöllun bankans segir að þessar væntingar hafi ekki raungerst í viðskiptum á fasteignamarkaði, og að mögulega sé ástæðan sú að margir sem hafa hug á fasteignaviðskiptum séu að bíða eftir útspili stjórnvalda í húsnæðismálum, sem voru hluti af Lífskjarasamningunum svokölluðu. „Nýjustu tölur af fasteignamarkaði benda til þess að enn sé nokkuð í land með að þessar væntingar raungerist. Mögulega eru margir að bíða eftir nánari útfærslum á þeim aðgerðum sem stjórnvöld boðuðu í tengslum við undirritun kjarasamninga í vetur,“ segir í umfjöllun Landsbankans.
Nokkur kólnun hefur verið á fasteignamarkaði að undanförnu, eftir miklar hækkanir á árunum 2011 til 2018. Mest var hækkunin á vormánuðum 2017, en þá mældist árshækkun 23,5 prósent. Hún mælist nú 2,9 prósent að nafnvirði. Að teknu tilliti til verðbólgu, sem mælist nú 3,1 prósent, þá er fasteignaverð því tekið að lækka, samkvæmt nýjustum tölum Þjóðskrár.
Samkvæmt Lífskjarasamningunum svonefndu, var útspil stjórnvalda á húsnæðismarkað, meðal annars falið í tveggja milljarða framlagi í stofnframlög við húsnæðisuppbyggingu, sem kemur til framkvæmda 2020 til 2022. Þá er gert ráð fyrir uppbyggingu á 1.800 íbúðum og síðan að unnið verði aðilum vinnumarkaðarins að leiðum til að auðvelda ungu fólki kaup á íbúðum.