Alþingi mun koma saman á morgun til þess að ræða frumvörp og þingsályktunartillögur er varða þriðja orkupakkann og breytingu á raforkulögum. Um er að ræða svokallaðan þingstubb en samkomulag um þinglok náðist þann 18. júní síðastliðinn. Það gerðist eftir að saman náðist milli ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins um hvernig haldið yrði á frekari umfjöllun um þriðja orkupakkann.
Til stendur að atkvæðagreiðsla um málið fari fram næsta mánudag og verður þá þingi frestað að nýju. Nýtt þing kemur saman þann 10. september næstkomandi.
Farið var yfir stöðuna á fundi þingflokksformanna fyrr í mánuðinum og dagskrá niðurnegld en samið hefur verið um að umræður um málin standi ekki lendur en til klukkan 20 á morgun og á fimmtudaginn.
Samkvæmt viðmælendum Kjarnans er búist við því að umræður og atkvæðagreiðsla muni fara fram samkvæmt áætlun enda sé búið að meitla ræðutímann „í stein“.
Í fyrramálið fá talsmenn þingflokkanna tíu mínútur hver og verða andsvör leyft. Við tekur hefðbundin umræða sem ætlað er að ljúki klukkan 20 um kvöldið. Á fimmtudaginn verða þrjú mál tengd orkupakkanum rædd saman; það er mælt verður fyrir þeim öllum í einu. Eins og áður segir fer atkvæðagreiðsla fram næstkomandi mánudag.
Nokkrir þingmenn sem Kjarninn hafði samband við segja að ákveðin þreyta sé í fólki og hlakki þau til að ljúka þessum þingstubbi.
Telur æskilegra að hafa lengri tíma í umræður
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í samtali við RÚV í gærkvöldi að hann teldi að æskilegra hefði verið að hafa lengri tíma í umræður en þingstubburinn gerir ráð fyrir.
„En það er búið að semja um þann tíma sem fer í umræðuna. Svo nú bindi ég fyrst og fremst vonir við það að þingmenn stjórnarliðsins hlusti á baklandið í eigin flokkum. Hlusti á sína flokksmenn og áhyggjur þeirra. Ég vona að í stað þess að halda því fram að ekkert nýtt hafi komið í ljós, leyfi sér að skoða staðreyndirnar og taki afstöðu út frá því,“ sagði Sigmundur Davíð.