Árið 2012 voru starfsmenn íslenskra banka og fjármálastofnanna 4.007 en í lok ársins 2018 voru þeir 3.250. Þeim hefur því fækkað um 757 á sex árum. Á sama tíma hefur útibúum fækkað um 25.
Líklegt er að áframhald verði á hagræðingu í bankakerfinu á næstunni. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein þriggja starfsmanna Fjármálaeftirlitsins í ritinu Fjármál.
Höfundar greinarinnar eru Finnur Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri bankasviðs, Elmar Ásbjörnsson, forstöðumaður áhættugreiningar á bankasviði, og Skúli Magnússon, sérfræðingur í fjárhagslegu eftirliti.
Fjallað er um stöðu íslenska bankakerfisins í ritinu, og meðal annars fjallað um hvernig eiginfjárhlutföll þeirra hafa þróast. Þau hafa farið lækkandi á undanförnum árum, en eru enn há í alþjóðlegum samanburði.
Eiginfjárstaða þriggja stærstu banka landsins, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, er og hefur verið sterk á undanförnum árum, segir í ritinu. Í árslok 2018 nam eiginfjárgrunnur þeirra tæpum 613 milljörðum króna og breyttist lítillega milli ára. Eiginfjárgrunnur þeirra er að mestu leyti samsettur af almennu eigin fé þáttar 1 (e. CET1; einkum hlutafé og uppsafnaður hagnaður fyrri ára) eða rúm 94%. „Eiginfjárhlutfall þeirra lækkaði á milli ára og skýrist það bæði af arðgreiðslum þeirra og hærri áhættugrunni,“ segir í ritinu.
Saman mynda bankarnir þrír 98 prósent af bankakerfinu, og formlega skilgreiningu sem kerfislægt mikilvægir bankar. Heildar eignir þeirra - að Kviku banka viðbættum - námu rúmlega 3.700 milljörðum í lok árs í fyrra.
Í umfjölluninni í Fjármálum segir að breytt staða í hagkerfinu, eftir fall WOW air og loðnubrest, muni vafalítið hafa áhrif á rekstur bankana. „Áhrifanna er þegar farið að gæta í auknu atvinnuleysi, fækkun gistinátta og versnandi nýtingu á gistirými. Bankarnir munu án efa finna fyrir þessari breytingu í minni eftirspurn eftir útlánum og annarri bankaþjónustu ásamt vaxandi erfiðleikum lántaka sem koma fram í auknum vanskilum og þar með aukinni virðisrýrnun útlána.“