Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, mun taka við sem þingflokksformaður flokksins. Frá þessu greindi Guðjón S. Brjánsson, varaforseti Alþingis, í upphafi þingfundar í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur verið formaður þingflokks Pírata síðan í nóvember 2017 og mun hún taka við sem varaformaður þingflokksins, samkvæmt tilkynningu varaforseta.
Halldóra hefur verið þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður síðan árið 2016. Hún var varaþingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður frá september til október árið 2014, febrúar til mars, mars til apríl og nóvember árið 2015 og í október 2016.
Hún hefur enn fremur verið formaður velferðarnefndar síðan árið 2017. Hún var í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2017 og Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sama ár.