Hagnaður á starfsemi Sýnar var 455 milljónir á fyrri hluta ársins, en uppgjör fyrir fyrra hluta ársins litast verulega af söluhagnaði vegna sameiningar félags í Færeyjum þar sem Sýn er hluthafi.
Samruni P/F Hey í Færeyjum, dótturfélags Sýnar hf. og Nema, dótturfélags Tjaldurs í Færeyjum gekk í gegn á fyrsta fjórðungi ársins 2019, og söluhagnaður nam 817 milljónum króna. Eignarhlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi, er tæplega 50 prósent.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárfestingakynningu vegna uppgjörs Sýnar fyrir annan ársfjórðung, en Sýn er skráð á markað. Markaðsvirði félagsins hefur hrunið niður á undanförnu ári, en verðmiðinn hefur lækkað um 56,15 prósent á tímabilinu.
Tekjur á öðrum ársfjórðungi námu rúmlega 5 milljörðum króna, en tap var 215 milljónir af rekstrinum.
Eiginfjárhlutfall félagsins er 35,6 prósent. Eignir 30,4 milljarðar og skuldir 19,6 milljarðar.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir í yfirlýsingu að afkoma félagsins hafi valdið vonbrigðum.
Betri tíð sé þó í vændum, þar sem félagið hafi komið miklu í verk á skömmum tíma, samhliða endurskipulagningu á stjórnun félagsins og stefnunarmótunarvinnu. „Afkoma síðasta ársfjórðungs eru vonbrigði. Fyrri spár stóðust engan veginn. Helstu ástæður eru verðlækkanir og frítilboð á fjarskiptamarkaði auk þess sem kostnaður á fjölmiðlamarkaði var umfram áætlanir.
Ný framkvæmdastjórn hefur komið miklu í verk frá því hún tók við eftir síðasta uppgjör í maí. Við höfum hagrætt mikið í rekstri, en kostnaðarlækkun mun nema yfir 50 milljónum á mánuði þegar hún kemur fram í vetur. Deildir hafa verið sameinaðar, millistjórnendum og almennu starfsfólki hefur fækkað auk þess sem endursamið hefur verið við birgja. Rekstraráætlanir hafa verið endurgerðar, sem mun skila sér í áreiðanlegri spám. Allt fyrirtækið fór í gegnum stefnumótun í júní, með mikilli þátttöku starfsfólks, og niðurstaðan var einróma og skýr. Við höfum því samstilltan hóp sem vinnur nú að sameiginlegum markmiðum. Í framhaldi af stefnumótun og áherslubreytingum voru deildir færðar til í skipuriti og þannig styttast boðleiðir og samstarf verður enn betra. Tekjusvið eru núna skýrt afmörkuð og heyra beint undir forstjóra. Nýtt svið, samskiptasvið, sem markaðssvið rennur m.a. inn í hefur verið stofnað. Búið er að vinna nýja samskiptagreiningu og endurskoða vörumerki félagsins.
Áhersla vetrarins er að einfalda og bæta þjónustu við viðskiptavini. Við höfum frábærar vörur sem við erum stolt af og munum kynna frekar í vetur,“ segir Heiðar.