Kólnunin í hagkerfinu að undanförnu hefur verið þó nokkur og sést meðal annars í töluverðum samdrætti í innflutningi á vörum og þjónustu. Hann dróst saman um 8,1 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og er það mesti samdráttur frá árinu 2009, þegar harkalegur skellur kom fram í hagkerfinu eftir allsherjarhrun fjármálakerfisins í október 2008.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands, þar sem fjallað er um stöðu mála í hagkerfinu. Spá Seðlabankans gerir nú ráð fyrir 0,2 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, en samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur á síðasta ári 4,6 prósent.
„Innflutningur á eldsneyti, fólksbílum og hrávöru dróst saman og samtals var vöruinnflutningur 9,5% minni en á sama tíma í fyrra sem er nokkru meiri samdráttur en gert hafði verið ráð fyrir í maí. Þjónustuinnflutningur dróst saman um 6% sem einnig er nokkru meiri samdráttur en spáð hafði verið sem skýrist að mestu leyti af vanmati á áhrifum minnkandi umsvifa WOW Air á innflutta þjónustu. Minnkandi fjárfesting, aukin hliðrun eftirspurnar að innlendri framleiðslu og minni þörf á innfluttum aðföngum fyrir innlenda útflutningsstarfsemi gera það að verkum að nú er talið að innflutningur dragist mun meira saman í ár en spáð var í maí eða um 5,4% í stað 1%. Líkt og í maí er talið að innflutningur aukist á ný á næsta ári,“ segir meðal annars í Peningamálum.
Eins og kunnugt er, hélt Seðlabanki Íslands áfram að lækka vexti með ákvörðun peningastefnunefndar í dag. Lækkunin var 0,25 prósentustig og eru meginvextir nú 3,5 prósent, en verðbólga er 3,1 prósent.
Samkvæmt spá Seðlabanka Íslands hefur dregið nokkuð úr verðbólguþrýstingi, og er því spá að verðbólga verði komin niður að 2,5 prósent markmiði á næsta ári.