Ásgeir Margeirsson, sem verið hefur forstjóri HS Orku í sex ár, hefur komist að samkomulagi um starfslok við stjórn félagsins. Staða forstjóra verður auglýst en Ásgeir mun gegna henni þangað til að nýr forstjóri tekur við. Ásgeir var ráðinn forstjóri í tíð fyrri meirihlutaeigenda, en miklar breytingar hafa orðið á eigendahópi HS Orku á síðustu mánuðum.
Í frétt á heimasíðu HS Orku segir Ásgeir að hann hafi leitt félagið í gegnum verulegar áskoranir og mikið vaxtaskeið. „Nýr forstjóri mun taka við góðu búi, framundan eru mikilvæg og umfangsmikil verkefni svo sem að ljúka framkvæmdum og gangsetja Brúarvirkjun, framkvæmdir við stækkun Reykjanesvirkjunar um 30 MW og endurnýjun og stækkun í orkuveri félagsins í Svartsengi. Um leið og ég þakka samstarfsmönnum frábært samstarf óska ég félaginu allrar velgengni í framtíðinni."
Bjarni Þórður Bjarnason, sem tók við sem stjórnarformaður HS Orku fyrir skemmstu segir að Ásgeir hafi um langa hríð verið lykilmaður í íslenska orkuiðnaðinum og leitt fyrirtækið farsællega í gegnum mikið breytingaskeið. „Eftir stendur myndarlegt fyrirtæki og góður árangur þess hefur endurspeglast í ríkum áhuga á félaginu jafnt frá lánveitendum og fjárfestum. Stjórn HS Orku þakkar Ásgeiri sérstaklega fyrir störf hans í þágu félagsins."
Lífeyrissjóðir keyptu
Jarðvarmi slhf, félag í eigu 14 íslenska lífeyrissjóð, keypti í maí hlut Innergex í HS Orku á 299,9 milljónir dali, eða 37,3 milljarða króna á núvirði.
Innergex seldi þar með sænska félagið Magma Sweden til Jarðvarma en Magma átti 53,9 prósent hlut í félaginu. Með þessu varð Jarðvarmi eigandi allra hluta í HS Orku, eina íslenska orkufyrirtækinu sem er í einkaeigu eftir að hafa gengið inn í sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK fyrr á þessu ári. Samanlagt greiddi Jarðvarmi 47 milljarða króna fyrir hlutina, en þeir nema 66,6 prósent af útgefnu hlutafé í HS Orku. Jarðvarmi var að nýta kauprétt sinn á hlutum í HS Orku en félagið átti áður 33,4 prósent hlut.
Í kjölfarið seldi Jarðvarmi síðan helming hlutafjár í HS orku til breska sjóðsstýringarfyrirtækisins Ancala Partners, sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum í Evrópu og er að stóru leyti fjármagnað af breskum lífeyrissjóðum. Áður en að það var gert tók Jarðvarmi þó 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu út úr orkufyrirtæki og seldi til nýs félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Blávarma slhf., á 15 milljarða króna. Miðað við það verð er heildarvirði Bláa lónsins 50 milljarðar króna.