Innlán viðskiptavina hafa aukist mikið hjá Kviku á skömmum tíma, og er það aðallega að þakka nýrri innlánavöru bankans, Auði. Aukning innlána hefur verið 21 prósent á þessu ári og nema þau nú 58 milljörðum. Sjóður og innstæður í Seðlabanka og ríkisskuldabréf nema 38,3 milljörðum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Kviku banka vegna uppgjörs fyrir fyrri helming ársins 2019.
Hagnaður Kviku fyrir skatta á fyrri árshelmingi 2019 nam 1.590 milljónum króna, samanborið við 1.056 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018.
Hagnaður eftir skatta á fyrri árshelmingi 2019 nam 1.455 milljónum króna, samanborið við 1.023 milljónir króna á fyrri árshelmingi 2018. Arðsemi bankans var 23,2 prósent og yfir markmiði bankans um 15 prósent arðsemi.
Arðsemi eiginfjár er mun hærri hjá Kviku en hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, þar sem hún hefur verið á bilinu 2 til 7 prósent, undanfarin misseri, en að meðaltali um 6 til 7 prósent sé horft yfir undanfarin fimm ár.
Kvika er með heildareignir upp á 114,7 milljarða króna, en til samanburðar eru heildareignir þriggja stærstu bankanna í kringum 3.300 milljarða.
„Rekstur Kviku á fyrstu sex mánuðum ársins gekk vel og er afkoma umfram áætlanir. Rekstur bankans hefur gengið mun betur en rekstraráætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það leitt til þess að afkomuspá bankans er hækkuð fyrir árið. Arðsemi hefur verið góð og hefur meðal annars leitt til þess að eiginfjárstaðan er sterk og langt umfram kröfur. Sé tekið mið af horfum í rekstri Kviku og afkomuspá fyrir árið skapar sterk eigin- og lausafjárstaða mikið svigrúm. Nú þegar hefur aukin innkoma Kviku á einstaklingsmarkað aukið samkeppni. Aukin samkeppni fjölgar möguleikum fyrirtækja og almennings á fjármálamarkaði. Umhverfi fjármálafyrirtækja þróast ört með tæknibreytingum og við það skapast ný tækifæri til að þjónusta okkar viðskiptavini og ná fram frekari ábata í rekstri,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, í tilkynningu.