Rekstur A-hluta borgarinnar, sá hluti sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 665 milljónum undir áætlun á fyrri hluta árs. Hagnaður var 1.653 milljónir króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að hann yrði 2.318 milljónir króna. Því var hagnaðurinn tæplega 29 prósent undir áætlun.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er enn lengra frá þeirri niðurstöðu sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hún var jákvæð um 1.811 milljónir króna en samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun átti hún að vera 3.188 milljónir króna. Niðurstaðan var því 1.377 milljónum krónum lakari en áætlunin gerði ráð fyrir.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna uppgjörs hennar. Þar segir að lakari rekstrarniðurstaða skýrist einkum af lægri tekjum af sölu byggingarréttar, lægri skatttekjum og hærri gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. Skuldir A-hlutans uxu um 5,5 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins.
Þegar rekstur B-hluta samstæðu Reykjavíkur, en undir hann falla fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki í hálfu eða meirihluta eigu borgarinnar, er talinn með þá batnar uppgjörið umtalsvert og er jákvætt um 7,7 milljarða króna. Það er tæplega 1,2 milljarði króna yfir áætlun en ástæða þessa er einkum sú að matsverð húsnæðis í eigu Félagsbústaða hækkaði umtalsvert á tímabilinu, eða um 3,5 milljarða króna. Það er fjármagn sem borgin getur ekki losað nema að hún hefji sölu á félagslegu húsnæði í sinni eigu. Á undanförnum árum hefur borgin verið að auka við félagslegt húsnæði frekar en að selja slíkt.
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks, stærsta stjórnmálaflokksins í minnihluta borgarstjórnar, lagði til á fundi borgarráðs í morgun, þar sem árshlutareikningurinn var til afgreiðslum að fengnir yrðu óháðir matsaðilar til að meta eignasafn Félagsbústaða hf., en virði eigna félagsins hefur hækkað um tæplega 51 milljarð króna á nokkum árum.