Landsframleiðsla jókst um 0,3 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins að raungildi þegar hún er borin saman við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Þetta kemur fram í frétt sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Þar segir að hagvöxtur hafi verið 1,4 prósent á öðrum ársfjórðungi 2019, sem lauk í lok júní síðastliðins. Þá hafa tölur um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi verið endurskoðaðar. Samkvæmt þeirri endurskoðun var 0,9 prósent samdráttur á fyrstu þremur mánuðum ársins, en ekki 1,7 prósent hagvöxtur líkt og fyrri niðurstöður Hagstofu Íslands höfðu sagt til um.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 hefur íbúðafjárfesting aukist um 31,2 prósent að raungildi, borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018.
Hagvöxtur 2018 4,6 prósent
Líkt og áður sagði þá jókst landsframleiðsla á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 um 0,3 prósent að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 3,1 prósent. Í frétt Hagstofunnar segir að einkaneysla hafi aukist að raungildi um 2,2 prósent, samneysla um þrjú prósent en fjármunamyndun dregist saman um 16,4 prósent. Útflutningur jókst um 3,1 prósent en innflutningur dróst saman um 10,6 prósent.
Hagstofan birti síðast þjóðhagsspá 10. maí síðastliðinn. Niðurstaða hennar var að verg landsframleiðsla myndi dragast saman um 0,2 prósent í ár. Í henni kom einnig fram að hagvöxtur hefði verið 4,6 prósent í fyrra. Nú hafa tölur um hagvöxt árið 2018 einnig verið endurskoðaðar. Hann reyndist hærri en áður var áætlað, eða 4,8 prósent. Næsta þjóðhagsspá verður birt fyrsta nóvember og verður athyglisvert að sjá hvernig ofangreindar skekkjur muni hafa áhrif á hana.
Gangi síðasta þjóðhagsspá eftir verður 2019 fyrsta árið frá 2010 þar sem ekki mælist hagvöxtur á Íslandi. Frá þeim tíma hefur landsframleiðsla vaxið í heild um 34 prósent að raungildi. Að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 2,7 prósent, jókst landsframleiðsla á mann að raungildi um 2,1 prósent árið 2018. Frá árinu 2010 hefur landsframleiðsla á mann aukist um 20,9 prósent að raungildi, og er nú meiri en áður hefur mælst.