Í ljósi áframhaldandi óvissu og til að lágmarka áhrif kyrrsetningar MAX vélanna á rekstur Icelandair mun félagið grípa til frekari ráðstafana sem fela í sér tímabundnar breytingar hjá hópi flugmanna og flugstjóra á fjögurra mánaða tímabili, frá 1. desember næstkomandi til 1. apríl 2020. Aðgerðirnar felast í því að 111 flugmenn færast niður í 50 prósent starf og 30 flugstjórar verða færðir tímabundið í starf flugmanns. Í dag starfa tæplega 550 flugmenn og flugstjórar hjá félaginu.
Frá þessu er greint í fréttatilkyningu frá félaginu.
Icelandair gerir ekki ráð fyrir því að taka Boeing 737-MAX flugvélar á ný inn í rekstur félagsins fyrr en í byrjun næsta árs. Upphaflega gerði félagið ráð fyrir níu slíkum vélum í flota sínum á þessu ári. Í tilkynningunni segir að kyrrsetningin valdi jafnframt óvissu varðandi afhendingu fimm nýrra MAX véla sem áætlaðar voru til afhendingar snemma á næsta ári. Um sé að ræða fordæmalausa stöðu sem hafi umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins sem og flugáætlun í vetur. Óhjákvæmilega hafi þessi staða áhrif á áhafnaþörf félagsins og þurfi félagið að bregðast við með því að aðlaga fjölda áhafnameðlima að flugflota félagsins.
„Icelandair og Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hafa á þessu ári unnið saman að því að skapa tækifæri til þess að takast á við sveiflur í áhafnaþörf félagsins með öðrum leiðum en áður hefur tíðkast og nú þegar hafa störf tæplega 100 flugmanna tekið breytingum yfir veturinn,“ segir í tilkynningunni.
Hvað varðar stöðu mála vegna Boeing 737 MAX flugvéla, þá hefur yfirgripsmikið ferli, sem er í höndum alþjóðaflugmálayfirvalda, staðið yfir síðan vélarnar voru kyrrsettar fyrr á þessu ári. Sú vinna fer fram í samvinnu við Boeing og þau flugfélög sem eru með MAX vélar í rekstri og samkvæmt Icelandair er það hagsmuna- og forgangsmál allra hlutaðeigandi að tryggja öryggi vélanna og koma þeim aftur í rekstur.
„Icelandair mun, hér eftir sem hingað til, leggja höfuðáherslu á að lágmarka tjón félagsins og áhrif kyrrsetningarinnar á farþega og íslenska ferðaþjónustu. Félagið er þegar í viðræðum við Boeing um að fá það fjárhagslega tjón sem hlotist hefur af kyrrsetningu vélanna bætt,“ segir að lokum í tilkynningunni.