„Ekki er unnið að undirbúningi á sölu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og engin ákvörðun hefur verið tekin um að hefja slíkan undirbúning.“
Þetta segir Ágúst Geir Ágústsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, í svari við fyrirspurn sem Kjarninn beindi til ríkisstjórnarinnar, vegna frétta sem birtust í Morgunblaðinu um að sala á Leifsstöð gæti „raungerst“ á næstu mánuðum.
Var þar meðal annars vísað til þess að þreifingar hefðu átt sér stað við ríkið um sölu eða kaup fjárfesta, á flugvellinum. „Það hafa átt sér stað þreifingar við ríkið undanfarin misseri þar sem þetta mál hefur verið til skoðunar,“ segir Ómar Örn Tryggvason, framkvæmdastjóri Innviða fjárfestinga slhf., í viðtali við Morgunblaðið.
Vísaði hann í máli sínu til hugsanlegrar þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun og eignarhaldi á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en hún er að fullu í eigu ríkisins í gegnum Isavia. Í frétta Morgunblaðsins var meðal annars vísað til þess að málið hefði verið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, það er sala á flugstöðinni.
Eigið fé Isavia, í lok árs í fyrra, nam rúmlega 35 milljörðum króna. Tekjur námu 41,7 milljarði króna og hagnaður var 4,2 milljarðar.
Var í Morgunblaðinu vísað til þess að virði rekstrarins gæti legið á bilinu 80 til 100 milljarðar króna, og sagt að ríkið gæti losað um umtalsvert fjármagn með sölu á flugstöðinni, í það minnsta að hluta.
Hvorki eignarhlutir í Isavia, eða flugvöllum landsins, hafa verið auglýstir til sölu, og hefur engin ákvörðun verið tekin hjá stjórn félagsins um að selja flugvelli sem félagið á og rekur.
Samkvæmt stjórnsýslulögum, og lögum og reglum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fyrirtækjum, þarf að fara eftir gagnsæjum ferlum. Upplýsingar hafa ekki fengist staðfestar um það í hverju þessar þreifingar um sölu á eignarhlut í Leifsstöð hafa falist, sem vitnað er til í frétt Morgunblaðsins og Ómar tjáir sig um, fyrir hönd Innviða fjárfestinga slhf.
Kjarninn er með fyrirspurnir útistandandi vegna þessara hluta, og mun birta svörin eftir því sem þau berast.