Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, ávarpaði flokksmenn á flokksráðsfundi flokksins í Skaftafelli í dag, og sagði þar að flokksmenn mættu ekki gleyma hvaðan flokkurinn hefði komið inn í íslensk stjórnmál og hver saga hans væri.
Hún sagðist hafa áhyggjur af lýðræðislegum hreyfingum, og þróun þeirra um þessar mundir. Þá sagði hún að það væri enginn sem gæti svarað gagnrýni á flokkinn nema hann sjálfur, og vísaði þar til flokksmanna.
Hún sagði hefðbundin stjórnmála flokka eiga undir högg að sækja, meðal annars vegna vantrausts á stjórnmál og stjórnmálahreyfingar, og það væri ástæða til að hafa áhyggjur af því. Hins vegar mætti ekki láta deigann síga, og mikilvægt að flokksmenn sýndu samstöðu og áhuga á því að tala fyrir stefnu flokksins.
Þá sagðist Katrín, að hún hefði ákveðið að taka þá „áhættu“ að vera ekki með skrifaða ræðu heldur glærur, og það hefði hún ekki gert síðan hún var kennari sjálf.
Hún sagði VG hafa brýnt erindi í samtímanum, og að rödd flokksins væri sérstaklega mikilvæg þegar kæmi að umhverfis- og lofslagsmálum.
„Þess vegna skiptir máli að við stöndum með okkur sjálfum, þekkjum söguna, vitum hver við erum og hvaðan við komum. Ég er mjög bjartsýn fyrir hönd þessarar hreyfingar og ég held að saga hennar sýni að hún mun þora, hún mun geta og hún mun gera,“ sagði Katrín meðal annars.
Katrín enn fremur dæmi af stefnumálum flokksins, sem hefðu verið í umræðunni að undanförnu, og vísaði þar meðal annars til sæstrengs og raforkusölu um hann, en flokkurinn ályktaði gegn því árið 2017. „Við höfum talað skýrt í þessu máli frá upphafi. Ástæðan er sá þrýstingur sem slíkur sæstrengur myndi setja á miklu fleiri virkjanir á Íslandi og þar voru náttúruverndarsjónarmið höfð að leiðarljósi,“ sagði Katrín.
Þá sagði hún kaup á landi, meðal annars vatnsréttindum, vera áhyggjumál og það þyrfti að hlusta vel á gagnrýni á þá þróun. „Það er mjög mikilvægt að sú löggjöf sem við búum við verði endurskoðuð. Hún er mjög opin og miklu opnari en í nágrannalöndum okkar,“ bætti hún við.
Flokksráðsfundur Vinstri grænna mun standa yfir um helgina, en hann hófst formlega í dag.