Utanríkisráðuneytið hefur gripið til öryggisráðstafana í kjölfar líflátshótana í garð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í tengslum við þriðja orkupakkann. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag.
Utanríkisráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að málið sé komið í farveg hjá embætti ríkislögreglustjóra. „Maður er ýmsu vanur en í þessu tilfelli er augljóst hver er ásetningurinn með þessari svokölluðu fjölmiðlaumfjöllun,“ segir hann og vísar í frétt Fréttatímans frá því í gær. „Hins vegar er okkur ráðlagt að líflátshótanir beri að taka alvarlega. Þær hótanir sem mér hafa borist á samfélagsmiðlum vegna þessarar fréttar hafa þegar verið settar í farveg hjá Ríkislögreglustjóra.“
Rætt var um þriðja orkupakkann á Alþingi í gær og í fyrradag en um svokallaðan þingstubb var að ræða. Atkvæðagreiðsla vegna málsins mun fara fram næstkomandi mánudag.
„Skylda okkar að hreinsa óværuna“
Vefmiðillinn Fréttatíminn birti í gær frétt sem ber fyrirsögnina „Skilar orkupakki 3,625 milljónum í vasa utanríkisráðherra?“ Í umræðum á samfélagsmiðlum í tengslum við fréttina eru dæmi þar sem ráðherra er hótað lífláti, samkvæmt Fréttablaðinu. Í Facebook-hópnum Orkan okkar: Baráttuhópur er til að mynda skrifað: „Kjöldrögum hann“, og „læka“ þrír við athugasemdina.
Fréttablaðið hefur einnig undir höndum skjáskot af athugasemd við færslu vegna fréttarinnar á Facebook en í henni segir: „Hið óhjákvæmilega er að verði þessi svik framin, tökum við á þessu pakki með þeim öflugustu aðferðum sem við höfum ... það er skylda okkar að hreinsa óværuna.“ Þar á eftir kemur listi: Hamar, naglar, timbur, gæðareipi og böðull. Mynd af hengingarreipi fylgir með athugasemdinni.