Meðalsölutími fasteigna hefur lengst nokkuð að undanförnu og er nú 2,8 mánuðir. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út samhliða vaxtaákvörðun peningastefnunefndar, síðastliðinn miðvikudag.
Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú 3,5 prósent og verðbólga á ársgrundvelli mælist 3,2 prósent.
Í peningamálum kemur fram að umfsvif á fasteignamarkaði hafi dregist nokkuð saman að undanförnu. Fasteignaverð hækkaði um 2,9 prósent að nafnvirði á ársgrundvelli, samkvæmt tölum í júlímánuði, sem þýðir að fasteignaverð hefur lækkað á undanförnu ári, að teknu tilliti til verðbólgunnar, sem er 3,2 prósent eins og áður segir.
Leiguverð hefur hækkað meira en íbúðaverð undanfarið ár og nam árshækkun þess 5,6 prósent í júlí.
Nokkuð virðist hafa dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði og fækkaði kaupsamningum um 13,7 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra. Fækkun kaupsamninga með nýbyggingar var enn meiri eða 28,9 prósent, samkvæmt því sem fram kemur í peningamálum.