Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason hefur tekið við starfi verkefnastjóra samfélagsmiðla og vefmiðlunar á RÚV og hóf hann störf í dag. Frá þessu greindi hann í stöðuuppfærslu á Facebook í morgun.
Hann stofnaði vefmiðilinn Nútímann fyrir um fimm árum síðan en fram kom í fréttum fyrir ári síðan að hann hefði selt miðilinn til eigenda ske.is og hafið störf hjá Hugsmiðjunni. Hann sagði við tilefnið að rekstrarumhverfið hefði verið erfitt en að hann hefði þó ekki þurft að leggja rekstrinum til krónu.
Atli Fannar er ekki ókunnugur RÚV en hann hefur um nokkurra ára skeið séð um innslög, sem kallast Fréttir vikunnar, á föstudagskvöldum í vikulegum þætti Gísla Marteins Baldurssonar.
„Það stóð ekki til að byrja í nýrri vinnu, ári eftir að ég hóf störf hjá Hugsmiðjunni. Þar er ég búinn að skemmta mér konunglega og ég er stoltur af verkefnunum sem ég tók þátt í þar,“ skrifar Atli Fannar í dag.
Hann segir að í sumar hafi RÚV hins vegar auglýst starf sem togaði svo svakalega í hann að hann gat ekki sleppt því að sækja um. „Nokkrum hraustlegum viðtölum síðar, þar sem ég talaði mikið og hratt en fannst ég samt gleyma öllu, tek ég við starfi verkefnastjóra samfélagsmiðla og vefmiðlunar. Byrja í dag. Þetta verður gaman.“