Stjórn Kviku hefur ákveðið að sameina alla eigna- og sjóðastýringarstarfsemi samstæðunnar. Auk eignastýringar Kviku á bankinn rekstrarfélögin GAMMA Capital Management hf. og Júpíter rekstrarfélag hf.
Með sameiningunni verður sameinað dótturfélag Kviku stærsta eigna-og sjóðastýringarfyrirtæki landsins með 45 starfsmenn og heildareignir yfir 440 milljarða króna í stýringu.
Í tilkynningu til Kauphallar kemur fram að Hannes Frímann Hrólfsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra eignastýringar Kviku, verður framkvæmdastjóri sameinaðs félag og tekur strax við sem framkvæmdastjóri Júpíters. Valdimar Ármann forstjóri Gamma, félags sem Kvika keypti fyrir nokkru, mun láta af störfum að eigin ósk í nánustu framtíð. Ragnar Páll Dyer, sem stýrt hefur Júpíter, mun í dag hefja störf sem framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir að eigna- og sjóðastýringarstarfsemi Kviku hafi vaxið mikið á síðustu árum, bæði með ytri og innri vexti. „Umhverfi fjármálafyrirtækja er að breytast og ég tel að mikilvægi eigna- og sjóðastýringarstarfsemi aukist enn frekar. Eigna- og sjóðastýring er ein af meginstoðunum í rekstri bankans og ég tel að þessar breytingar muni styrkja starfsemina til frekari vaxtar. Mig langar sérstaklega til þess að þakka Valdimar forstjóra GAMMA fyrir hans störf, en hann hefur leitt félagið farsællega í gegnum miklar breytingar.“