Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðin í stöðu hagfræðings BSRB, heildarsamtaka stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu, og hefur störf í dag. Sigríður starfaði áður á hagdeild Alþýðusambands Íslands, sem sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu og sem sérfræðingur á þjóðhagsreikningasviði Hagstofunnar.
Þá sat hún á þingi fyrir Samfylkinguna í sjö ár, frá 2009 og fram að haustkosningunum 2016, og var um tíma formaður fjárlaganefndar á árunum 2011-2012. Hún var einnig formaður velferðarnefndar frá 2012-2013 og á árunum 2013-2016.
Hún bauð sig einnig fram til formennsku í Samfylkingunni í mars 2015, gegn þá sitjandi formanni Árna Páli Árnasyni. Framboð hennar barst skömmu fyrir landsfund og því gátu einungis landsfulltrúar kosið í formannskosningunum í stað þess að allsherjaratkvæðagreiðsla færi fram sem allir flokksmenn gætu tekið þátt í. Niðurstaðan varð sú að Árni Páll sigraði með einu atkvæði, hlaut 241 atkvæði en Sigríður 240.
Sigríður hefur nýlokið meistaranámi í stjórnun og opinberri stefnumótun við Goldman School of Public Policy við Kaliforníuháskóla í Berkeley í Bandaríkjunum. Fyrir var hún með meistaragráðu í viðskipta- og hagfræði frá Uppsala-háskóla í Svíþjóð.
Í frétt um ráðninguna á heimasíðu BSRB er haft eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni samtakanna, að þau séu heppin að fá Sigríði til liðs við sig. „Hennar víðtæka reynsla mun nýtast okkur vel í yfirstandandi kjaraviðræðum og í öðrum stórum verkefnum sem eru fram undan.“
Sigríður segir sjálf að það sé ánægjulegt að bætast í hóp starfsmanna BSRB og vinna að hagsmunum um 22 þúsund félagsmanna bandalagsins. „Þetta eru spennandi tímar, kjaraviðræður í fullum gangi og mikil vinna fram undan hjá bandalaginu. Ég hlakka til að takast á við verkefnin og kynnast öllu því góða fólki sem starfar hjá aðildarfélögum BSRB.“