Þriðji orkupakkinn var samþykkur á Alþingi í dag. 46 þingmenn greiddu atkvæði með honum og 13 á móti. Málið hefur verið sérstaklega fyrirferðamikið á Alþingi en málinu var frestað í vor og boðað var sérstaklega til þings til að klára málið í lok ágúst. Andstaða Miðflokksins og Flokks fólksins var áberandi en umræður um þriðja orkupakkann stóðu yfir í um 150 klukkustundir á Alþingi og er það lengsta umræða í sögu þingsins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, stigu í pontu og gerðu grein fyrir atkvæði sínu en þau greiddu með þriðja orkupakkanum. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn málinu.
Kallað var af þingpöllum fram í fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu en hún og þingmenn flokksins greiddu atkvæði með þriðja orkupakkanum. Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, bað gesti góðfúslega að hafa hljóð á þingfundi.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, greiddi einnig með orkupakkanum, eins og aðrir þingmenn flokksins, og sagði hann pakkann hlúa að risastórum samningum við Evrópusambandið. Vegna umræðunnar væri ekki verið að ganga gegn stjórnarskrá.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði að ekkert í orkupakkanum myndi takmarka forræði íslenska ríkisins gagnvart náttúruauðlindum landsins og greiddi hún með pakkanum.
Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, tók til máls og sagði að þau í þingflokknum tækju mið af sérfræðiálitum og umræðu og að eftir sem áður væri fullt forræði yfir raforkuauðlindum landsins. Allir þingmenn VG greiddu með pakkanum.
Í upphafi skyldi endinn skoða
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði að í upphafi skyldi endinn skoða. Ljóst væri að áherslan væri á sameiginlegan innri markað Evrópusambandsins og sagði hún því nei til pakkanum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, greiddi jafnframt gegn þriðja orkupakkanum, sem og aðrir þingmenn flokksins.
Telur málið standast sjórnarskrá
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði grein fyrir sínu atkvæði og sagði hún þriðja orkupakkann ekki hættulegan Íslandi og taldi hún hann standast stjórnarskrá. Með honum væri neytendavernd tryggð.
Helgi Hrafn Gunnlaungsson, þingmaður Pírata, benti á að ekkert væri samþykkt með pakkanum nema innihaldi hans. Enginn vafi væri á að málið stæðist stjórnarskrá. Hann greiddi með þriðja orkupakkanum. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, greiddi aftur á móti atkvæði gegn þriðja orkupakkanum.
Afhenti varaforseta undirskriftir gegn pakkanum
Fulltrúar Orkunnar okkar afhentu fyrsta varaforseta þingsins hátt í 17 þúsund undirskriftir gegn þriðja orkupakkanum áður en þingfundur hófst í morgun.
Boðað var til mótmæla gegn þriðja orkupakkanum, sem hófst á sama tíma og þingfundurinn, eða klukkan 10:30 í morgun. Frosti Sigurjónsson, einn fulltrúa Orkunnar okkar, sagði í samtali við RÚV að um 16.800 manns hefðu skrifað undir.
Aðgreina flutningskerfi frá öðrum rekstri á orkumarkaði
Í þriðja orkupakkanum felst meðal annars að aðgreina flutningskerfi frá öðrum rekstri á orkumarkaði. Það þýðir að orkufyrirtækin mega ekki lengur eiga Landsnet, það fyrirtæki sem annast flutning raforku og stjórnun raforkukerfa á Íslandi.
Ísland fékk þó undanþágu frá þessu ákvæði pakkans og landið ræður sjálft hvernig eignarhaldi Landsnet eigi að vera. Í febrúar síðastliðnum var tilkynnt um að viðræður standi yfir á milli ríkisins og Landsvirkjunar um kaup á Landsneti. Gangi þau áform eftir fer eignarhaldið frá fyrirtæki að öllu leyti í eigu ríkisins til ríkisins. Gangi þau ekki eftir verður það áfram í höndum ríkisfyrirtækisins.
Aukinn réttur neytenda til að fá upplýsingar
Í pakkanum felst líka að innleidd eru ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits. Innan Evrópusambandsins verður það vald hjá eftirlitsstofnuninni ACER. Fyrir Ísland munu þær afmörkuðu heimildir sem ACER fær á orkumarkaði Evrópusambandsins hins vegar vera hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), þar sem fjölmargar aðrar eftirlitsheimildir eru nú þegar.
Þá felst í þriðja orkupakkanum aukin neytendavernd, það er ákvæði hans fela í sér aukinn rétt neytenda til að fá upplýsingar og aukin rétt til að skipta um orkusala. Þriðji orkupakkinn kemur einnig inn á mikilvægi þess að koma í veg fyrir orkuskort og inniheldur heimildir til að grípa til ráðstafana til að tryggja öruggt framboð á raforku fyrir almenning.