Kosið verður um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar eystri og Djúpavogs í lok næsta mánaðar. Ef til sameiningar kemur verður núverandi stjórnskipulagi sveitastjórnanna breytt.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Róberti Ragnarssyni, verkefnastjóra sameiningar Sveitarfélagsins Austurlands, og Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði og formanns samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi.
Ný tegund stjórnskipulags verður sem sagt tekin í gagnið verði af sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga. Í tilkynningunni segir að stjórnskipulagið byggi á einfaldri og skilvirkri stjórnsýslu, ásamt valddreifingu til heimastjórna sem fara með tiltekin nærþjónustuverkefni. Markmiðið með heimastjórnunum sé að tryggja áhrif íbúa á nærþjónustu og bregðast við þeirri gagnrýni að jaðarbyggðir missi áhrif í sameinuðum sveitarfélögum.
Fulltrúar úr 113 í 42
Ellefu kjörnir fulltrúar munu taka sæti í bæjarstjórn og verða þrjú fagráð starfandi. Fimm fulltrúar verða í byggðaráði, sjö í fjölskylduráði og sjö í umhverfisráði. Þar að auki verða fjórar heimastjórnir og ýmis notendaráð, svo sem ungmenna-og öldungaráð.
Samkvæmt núverandi skipulagi sitja 113 fulltrúar í stjórnum, ráðum eða nefndum á vegum sveitarfélaganna fjögurra. Með nýja skipulaginu verður fulltrúum fækkað niður í 42 og verður hlutverk þeirra og ábyrgð veigameira en áður, samkvæmt tilkynningunni. Hvert ráð mun funda vikulega en hugmyndin með ráðunum er að stytta boðleiðir og flýta afgreiðslu mála.
Bæjarstjórnin framselur hluta af valdi sínu til heimastjórna
Samkvæmt nýja skipulaginu framselur bæjarstjórnin hluta af valdi sínu til heimastjórna en þessi tilhögun byggir á tilraunaákvæði um stjórn og stjórnskipulag einstakra sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum frá árinu 2011. Ef af sameiningu verður er það í fyrsta sinn sem þetta ákvæði er nýtt.
Heimastjórnir verða fjórar og munu þrír fulltrúar munu sitja í hverri heimastjórn, tveir sem kosnir eru beinni kosningu af íbúum á hverju svæði fyrir sig og einn sem á sæti í bæjarstjórn. Fulltrúarnir þrír eru allir jafn réttháir. Í tilkyninngunni segir að með þessu móti verði sterk tenging á milli bæjarstjórnar og heimastjórna.
Aðalskipulag áfram í höndum bæjarstjórnar
Heimastjórnir munu sinna ýmsum nærþjónustuverkefnum og fara meðal annars með afgreiðslu deiliskipulags á sínu svæði sem er veigamikill þáttur í hverju sveitarfélagi. Aðalskipulag verður hins vegar áfram í höndum bæjarstjórnar.
Þá mun bæjarstjórnin setja umhverfisstefnu fyrir sameinað sveitarfélag í heild sinni en verkefni náttúruverndarnefnda verða á hendi heimastjórna á hverju svæði fyrir sig. Í því felst meðal annars að heimastjórnir hafa mikil áhrif á ákvarðanir um friðlýsingar og framkvæmdir í nærumhverfinu.