Samanlagt virði skráðra félaga á Íslandi nemur nú rúmlega 1.110 milljörðum króna og hefur það hækkað skarpt á undanförnum hálfu ári.
Það má að mestu leyti rekja til hækkunar á markaðsvirði Marels, en það nemur nú 451 milljarði króna. Það hefur hækkað um tæplega 60 prósent á einu ári.
Samanlagt eigið fé skráðra félaga á Íslandi nemur 766 milljörðum króna, miðað við síðustu birtu uppgjör, og því er markaðsvirðið 1,44 sinnum samanlagt eigið fé, samkvæmt samantekt Kjarnans en blaðamaður hefur haldið utan um þróun á þessum upplýsingum og fyrrnefndum margfaldara undanfarin fimm ár.
Á þennan mælikvarða, sem er aðeins einn af mörgum sem stundum er notaður til að glöggva sig á markaðsvirði félaga, þá er markaðsvirðið ekki svo hátt í alþjóðlegum samanburði. Algengt er að markaðir séu með mun hærri verðmiða miðað við eigið fé.
Þannig er markaðsvirði Amazon nú 872 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 110 þúsund milljörðum króna, en eigið fé fyrirtækisins var 43,5 milljarða Bandaríkjadala um mitt þetta ár, eða sem nemur um 5.480 milljörðum króna.
Markaðsvirði félagsins nemur því um tuttuguföldu eigin fé þess.
Af íslenskum félögunum er fyrrnefndur margfaldari lægstu hjá Icelandair, Heimavöllum og Arion banka. Á fyrrnefndufélögunum tveimur nemur markaðsvirðið 0,71 sinnum eigið fé, en hjá Arion banka er það 0,72 sinnum eigið fé.
Fasteignafélögin fjögur sem eru skráð á markað á Íslandi eru öll með lægra markaðsvirði en sem nemur eigið fé þeirra.
Í tilviki Marel er markaðsvirðið 3,5 sinnum eigið fé, en þar á eftir kemur Hagar, en markaðsvirði þess nemur tæplega tvölföldu eigin fé þess.