„Gleðifréttir! Samþykkt að vinna áfram með tillögu sósíalista með útsvarið á fjármagnstekjur og henni vísað til borgarráðs til frekari skoðunar.“
Þetta segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósílistaflokksins, á Facebook síðu sinni, um tillögu er varðar útsvarstekjur sveitarfélaga af fjármagnstekjum.
Tillaga Sönnu, sem nú hefur verið vísað til borgarráðs, snýst um að fela þeim borgarfulltrúum sem sitja fyrir hönd Reykjavíkurborgar í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að leggja fyrir stjórn þess, tillögu um álagningu útsvars á fjármagnstekjur. Ástæða þess að hún vill taka tillöguna fyrir á vettvangi Sambandsins er sú að sveitarfélög geta ekki lagt á umrædda skatta án laga frá Alþingi. „Hafi einstaklingur einungis fjármagnstekjur en engar launatekjur greiðir viðkomandi ekkert útsvar til viðkomandi sveitarfélags sem hann býr í. Þ.e.a.s. viðkomandi greiðir því ekki í sameiginlegan sjóð borgar eða bæjar líkt og launafólk viðkomandi sveitarfélags. Til að vinna gegn þessu ósamræmi í skattlagningu og til að efla tekjustofna sveitarfélaganna er mikilvægt að leggja útsvar á fjármagnstekjur,“ segir í greinargerð með tillögunni.
Staðgreiðsla skatta af launatekjum er á bilinu 36,94 til 46,24 prósent að útsvari meðtöldu en fjármagnstekjuskattur er 22 prósent. Þeir sem hafa tekjur sínar af fjármagni þurfa ekki að greiða útsvar af þeim tekjum.
Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, hefur tekið undir með Sönnu og sagt það skynsamlegt að leggja útsvar á fjármagnstekjur. Það sé „óþolandi að sumir séu í aðstöðu til að beinlínis velja að greiða ekki skatta til sveitarfélaga. Við hin borgum þá í staðinn leikskóla, grunnskóla, götulýsingu, gistiskýli, menningarstofnanir, umönnun aldraðra og veikra og allt annað sem útsvarið okkar fer í.“