Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, hefur falið refsiréttarnefnd að skoða hvort rétt sé að setja refsiákvæði í hegningarlög sem tekur sérstaklega á auðkennaþjófnaði. Slíkur þjófnaður, þar sem einstaklingar eru að villa á sér heimildir á samfélagsmiðlum, hefur verið að aukast hér á landi en samkvæmt varahéraðssaksóknara lenda sífellt fleiri slík mál á borði hennar
Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, um auðkennaþjófnað á netinu.
Engin ákvæði er að finna í hegningarlögum um auðkennaþjófnað sem gerir ákæruvaldinu erfiðara fyrir að sækja slík mál. Refsiréttarnefnd fer nú yfir hver sé skilgreining á auðkennaþjófnaði og hversu algeng auðkennaþjófnaður á netinu er. Auk þess skoðar nefndin hvort að rétt sé að setja refsiákvæði um slíkan þjófnað í hegningarlögum.
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, sagði í samtali við mbl.is í maí síðastliðnum að mál sem tengjast auðkennaþjófnaði séu sífellt að aukast. Hún sagði jafnframt að erfitt væri að eiga við mál af þessu tagi þar sem engin ákvæði snerta á slíkum þjófnaði í hegningarlögum.
„Við sjáum alltaf meira og meira af málum sem koma upp þar um er að ræða einhverskonar auðkennaþjófnað. Auðkennaþjófnaður getur verið í ýmisskonar tilgangi. Gert í auðgunartilgangi til að þess koma höggi á einhvern, meiða æru hans eða í einhverjum svona tilgangi. Það er eitthvað sem þarf að skoða,“ sagði Kolbrún.