Yfirmaður öryggismála við Höfða þríspurði starfsmann sendiráðs Bandaríkjanna hvort að Dagur B. Eggertsson væri virkilega borgarstjórinn í Reykjavík þegar Dagur kom í Höfða í dag til að vera viðstaddur fund með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Ástæðan fyrir því að yfirmaðurinn trúði ekki að Dagur gæti verið borgarstjóri var sú að Dagur var hjólandi. „Ég hef aldrei hitt borgarstjóra á hjóli áður,“ sagði yfirmaðurinn á ensku við borgarstjórann.
Dagur greinir frá þessu á Twitter. Þar segir hann að eðlilegt svar við orðum yfirmannsins væru að allt væri einhvern tímann fyrst (e. first time for everything“).
Gríðarlegar öryggisráðstafanir eru vegna heimsóknar Pence til Íslands. Hátt í 300 manns eru í fylgdar- og öryggisliði forsetans og eru leyniskyttur meðal annars staðsettar upp á höfuðstöðvum Arion banka, sem staðsettar eru við hlið Höfða.
“I’ve never met a Mayor on a bike before,” sagði yfirmaður öryggismála við Höfða, eftir að hafa þríspurt starfsmann sendiráðs Bandaríkjanna hvort ég væri (virkilega) borgarstjórinn í Reykjavík. “First time for everything,” var hið eðlilega svar. Mynd: @katrinat pic.twitter.com/4OBAW97fYx
— Dagur B. Eggertsson (@Dagurb) September 4, 2019
Þá var fjölmörgum götum lokað í höfuðborginni á meðan að á dvöl Pence stendur, en hann lenti skömmu fyrir klukkan eitt síðdegis og flýgur aftur af landi brott síðar í dag.
Pence mun síðar í dag taka þátt í umræðum um öryggismál á gamla hersvæðinu í Keflavík og hitta Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þar á stuttum fundi sem áætlað er að hefjist rétt fyrir klukkan 18:45.