Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, verður næsti dómsmálaráðherra. Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, greindi þingflokki Sjálfstæðisflokksins frá þessu á fundi síðdegis í dag, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Tillaga formannsins um að Áslaug Arna myndi taka við embættinu var samþykkt einróma í þingflokknum.
Miklar bollaleggingar hafa verið undanfarna daga um hver myndi setjast í ráðherrastólinn. Auk Áslaugar Arna voru nefnd nöfn Brynjars Níelssonar, Birgis Ármannssonar og Sigríðar Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna hefur verið formaður utanríkismálanefndar og hefur setið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá árinu 2016. Hún verður yngsti ráðherrann í ríkisstjórninni en hún verður 29 ára í nóvember næstkomandi. Áslaug Arna er með Stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands, BA-próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og MA-próf í lögfræði frá sama háskóla sem hún lauk árið 2017.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, hefur gegnt embættinu samhliða öðrum ráðherrastörfum frá því að Sigríður Á. Andersen sagði af sér í vor vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Greint var frá því í ágúst að hún myndi ekki verða dómsmálaráðherra til frambúðar heldur halda áfram sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.