Ríkissjóður verður rekinn í jafnvægi á næsta ári, árið 2020. Áætlaðar tekjur eru 920 milljarðar króna en áætluð gjöld, bæði frumgjöld og vaxtagjöld, eru áætluð 919 milljarðar króna. Þar með er staðfest að fallið hefur verið frá fyrri áformum um að reka ríkissjóð með afgangi, líkt og kortlagt var í endurskoðaðri fjármálaáætlun sem kynnt var fyrr á þessu ári. Ástæðan er sá samdráttur í efnahagslífinu sem hefur orðið í ár, mest megnis vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2020 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun. Í frétt á vef stjórnarráðsins vegna frumvarpsins segir að samdráttur í fyrirhuguðum afgangi á rekstri ríkissjóðs sé ákveðinn „til þess að skapa skilyrði fyrir hagkerfið til að leita fyrr jafnvægis og fá fótfestu fyrir nýtt hagvaxtarskeið, með það að leiðarljósi að stuðla að stöðugleika og bættum lífskjörum.“
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að skuldir ríkisins fari niður í 22 prósent á næsta ári. Í áðurnefndri frétt segir að svigrúm ríkissjóðs til þess að bregðast við hægari gangi í hagþróuninni megi „fyrst og fremst þakka agaðri fjármálastjórn undangenginna ára. Jákvæð afkoma, stöðugleikaframlög vegna losunar fjármagnshafta og aðrar óreglulegar tekjur á borð við arðgreiðslur hafa nýst til að lækka skuldir ríkisins verulega.“
Tekjuskattar og tryggingagjald lækka
Á meðal helstu tíðinda sem er að finna í frumvarpinu er að áform um að lækka tekjuskatt einstaklinga hefur verið flýtt. Þar segir að breytingarnar muni alls fela í sér 21 milljarða króna minni álögur þegar þær verða að fullu innleiddar, sem samsvari um tíu prósent af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. „Lækkunin kemur að fullu fram á tveimur árum en ekki þremur eins og áður hafði verið boðað. Tekjuskattslækkunin eykur ráðstöfunartekjur og einkaneyslu heimilanna. Stuðlar hún þannig að efnahagslegum stöðugleika, bæði vegna tímasetningarinnar í hagsveiflunni og hás sparnaðarhlutfalls heimilanna.“
Þá kemur fram í frumvarpinu að seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar á tryggingagjaldi muni koma til framkvæmda á næsta ári. Tryggingagjaldið verður því komið í 6,35 prósent um komandi áramót.
Hluti lífskjarasamningaloforðsins efndur
Þegar skrifað var undir hina svokölluðu lífskjarasamninga í apríl var ein meginforsenda þess að verkalýðsfélög sem fara með samningsumboð fyrir um helming íslensks vinnumarkaðar skrifuðu undir sú að ríkisstjórnin lagði fram langað loforðalista um aðgerðir sem hún ætlaði að grípa til svo hægt yrði að nást saman um hóflegar launahækkanir. Kostnaður vegna aðgerðanna var metinn á um 80 milljarða króna á samningstímabilinu.
Í fjárlagafrumvarpinu er boðað að ráðast í aðgerðir sem muni fela í sér um 16 milljarða króna kostnað á árinu 2020. „Auk breytinga á tekjuskattskerfinu sem kynntar voru í aðdraganda kjarasamninga, fela aðgerðir ríkisins í sér lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur og fjölmargar aðgerðir til að auðvelda íbúðarkaup. Flestar þessara aðgerða koma til framkvæmda á árinu 2020 og birtast í auknum framlögum, einkum til félags- og húsnæðismála.“
Aukin opinber fjárfesting
Til að takast á við niðursveifluna í hagkerfinu eru boðuð umtalsverð aukning í opinberri fjárfestingu. Samkvæmt fjárlögum yfirstandandi árs er áætlað að fjárfesting 2019 verði samtals 67,2 milljarðar króna. Á næsta ári er áætlað að hún verði 78,4 milljarðar króna og aukist því um 11,2 milljarða króna milli ára. Frá 2017 hefur hún aukist um rúma 27 milljarða króna að raungildi.
Á meðal stórra verkefna sem standa yfir eða ráðist verður í eru fjárfestingar í samgöngum upp á 28 milljarða króna, aukinn kraftur í uppbyggingu nýs Landsspítala upp á 8,5 milljarða króna, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, framlög vegna smíði nýs hafrannsóknarskips og bygging Húss íslenskunnar.
Ýmsar aðgerðir fjármagnaðar
Í frétt um frumvarpið á vef stjórnarráðsins segir að með því verði tryggður framgangur til margra góðra mála. „Þannig má nefna að breytingar á LÍN eru fjármagnaðar, ráðist verður í aðgerðir til auka nýliðun kennara og efla starfsnám og framlög til vísinda- og rannsóknasamstarfs verða aukin.
Framundan er stórsókn í vegamálum og stefnt er að kostnaðarþátttöku í flugfargjöldum innanlands fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Orkuskipti verða styrkt með skattaívilnunum og styrkjum úr Orkusjóði. Framlög til loftslagslagsmála hækka og renna meðal annars til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, en einnig aukast framlög til landvörslu og miðhálendisþjóðgarðs.
Undirbúnar verða aðgerðir sem miða að því að bæta mönnun í hjúkrun, áfram verður unnið að eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar, og uppbyggingu hjúkrunarrýma.
Unnið er að því að auka gæði í þjónustu við fötluð börn og foreldra þeirra og framlög aukin í samræmi við fyrri áform til að bæta kjör öryrkja. Stuðlað verður að atvinnuþátttöku aldraðra, réttur foreldra til fæðingarorlofs lengdur og framlög til barnabóta aukin.
Einnig verða framlög tryggð til húsnæðismála í tengslum við nýlega lífskjarasamninga og boðaðar eru aðgerðir til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni.“